Þykir mjög óvenjulegt

Lítill drengur umskorinn.
Lítill drengur umskorinn.

Meirihluti þeirra umsagna sem borist hafa vegna umdeilds umskurðarfrumvarps Silju Daggar Gunnarsdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins, er frá erlendum aðilum; einstaklingum, stofnunum og samtökum. Þykir það mjög óvenjulegt, að sögn Helga Bernódussonar, skrifstofustjóra Alþingis. „Það eru ýmsir sem láta sig þetta varða, aðrir en Íslendingar,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Þegar þetta er skrifað hafa alls 90 umsagnir borist vegna frumvarpsins en 48 þeirra eru frá erlendum aðilum.

Frumvarpið felur í sér að umskurður barna verði almennt bannaður með lögum að viðlagðri fangelsisrefsingu, í stað þess að bannið nái aðeins til stúlkna eins og nú er raunin.

Hefur frumvarpið vakið mikla athygli erlendis og fjallað hefur verið um það í erlendum miðlum. Um miðjan febrúar var frétt um frumvarpið til að mynda þriðja mest lesna fréttin á vef fréttastofu BBC. Allir geta sent umsögn vegna frumvarpsins, en allsherjar- og menntamálanefnd óskaði einnig eftir umsögn frá  yfir 200 stofnunum og samtökum hér á landi.

Skiptar skoðanir á frumvarpinu

Umsagnirnar sem borist hafa eru bæði jákvæðar og neikvæðar og skiptir þá engu hvort er horft til erlendra eða innlendra umsagnaraðila.

Meðal þeirra sem sent hafa inn umsögn og lýst yfir ánægju með frumvarpið eru erlendir karlmenn sem ólust upp við gyðingatrú og voru umskornir þegar þeir voru ungbörn. Þeim finnst hafa verið brotið gegn mannréttindum þeirra með slíkri aðgerð. Trúarleiðtogar gyðinga í Evrópu hafa hins vegar gagnrýnt frumvarpið harðlega.

Íslenskir læknar, hjúkrunarfræðingar og ljósmæður styðja frumvarpið og það gera danskir læknar líka, en yfir eitt þúsund danskir læknar sendu umsögn með undirskriftum þar sem þeir lýsa yfir ánægju og stuðningi við frumvarpið. Embætti land­lækn­is er hins ein­dregið á móti því að umsk­urður á drengj­um falli und­ir hegn­ing­ar­lög.

Barnaverndarstofa leggur ekki blessun sína yfir frumvarpið í þeirri mynd sem það er nú, en í umsögn stofnunarinnar segir að veruleg hætta sé á því að umskurður verði framkvæmdur í skjóli nætur verði hann gerður refsiverður. Þá leggst biskup Íslands einnig gegn frumvarpinu, sem og Fríkirkjan í Reykjavík.

mbl.is