Listhneigður þjófur á Landspítalanum

Eftirprentun af þessu glæsilega verki var stolið á Landspítala.
Eftirprentun af þessu glæsilega verki var stolið á Landspítala.

„Við erum að skoða upptökur úr öryggismyndavélum, hvaða mannskapur var hér á ferðinni. Það er auðvitað allskonar fólk sem liggur inni á spítalanum. Þetta er tiltölulega lítið verk og því ekki flókið að taka það með sér. Verk merkt Tolla hefur einfaldlega verið of freistandi fyrir einhvern,“ segir Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður forstjóra Landspítala.

Eftirprentun af verki listamannsins Tolla, Morgunstemning á Mýrunum, var stolið af gjörgæsludeild Landspítalans í Fossvogi fyrir helgi. Verkið var í herbergi sem ætlað er aðstandendum á deildinni.

Verkið er ein 20 áritaðra eftirprentana sem Tolli færði styrktarfélaginu Von að gjöf árið 2013. Von var stofnað af starfsmönnum gjörgæsludeildar árið 2007 og hefur félagið safnað fé til að styrkja sjúklinga og bæta húsnæði deildarinnar. Von kom til að mynda upp umræddu aðstandendaherbergi þaðan sem myndinni var stolið. Eftirprentanir af Tolla-verkinu voru seldar starfsmönnum deildarinnar og ágóðinn rann til Vonar.

Landspítalinn á umtalsvert safn málverka og prýða verk þekktustu listamanna þjóðarinnar veggi spítalans. Anna Sigrún segir að haldin sé skrá yfir frumgerðir verka í eigu spítalans. Málverkin séu kirfilega fest upp á veggi og hún þekki ekki dæmi þess að þeim hafi verið stolið. Vel sé fylgst með ástandi þeirra og hvort þau séu á sínum stað. „Það er almennt ekki algengt að hlutir hverfi hér á spítalanum. Nema kannski spritt,“ segir hún.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert