Meira en nokkur flokkur lofaði

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Hari

„Í raun og veru má segja að við sjáum fram á betri tíma í uppbyggingu innviða en nokkur flokkur lofaði fyrir kosningar,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra er fyrsta fjármálaætlun ríkisstjórnarinnar var kynnt á fundi í fjármálaráðuneytinu nú síðdegis.

„Það er gert ráð fyrir svigrúmi til aukningar útgjalda,“ sagði forsætisráðherra og minnti á að stjórnmálaflokkarnir hefðu boðað ýmislegt fyrir síðustu kosningar er kom að aukningu útgjalda. Stjórnin hafi aukið útgjöld um 47 milljarða króna í fyrstu fjárlögum sínum og enn betur sé gert í fjármálaáætluninni. „Það má segja að við sjáum fram á betri tíma í uppbyggingu innviða en nokkur flokkur lofaði fyrir kosningar. Það er í raun og veru verið að gera betur en við sáum fram á og nýta svigrúmið í þágu samfélagsins.“

Önnur staða virðist því vera uppi nú, en þegar  stjórnarmyndunarviðræður fóru fram eftir þingkosningar haustið 2016. Segir Katrín í samtali við mbl.is, að í því samhengi muni mjög mikið um þá niðurgreiðslu skulda sem hefur átt sér stað. „Fyrir kosningar töluðu allir flokkar um aukin útgjöld og að nýta tekjur úr fjármálakerfinu í uppbyggingu innviða, annars vegar í gegnum niðurgreiðslu skulda og hins vegar í gegnum framkvæmdir og það er það sem við erum til að mynda að sjá gerast hér í samgöngumálunum.“ Fjármögnunin sé til komin vegna þessara arðgreiðslna.

Gert ráð fyrir kjarabótum og kerfisbreytingum

Stjórnvöld séu nú í þeirri stöðu að ríkissjóður standi mjög vel, en sé um leið í þeirri stöðu að það er að hægjast á hagvexti. „Við lítum á það sem tækifæri til að koma með innspýtingu í uppbyggingu innviða.“ Sú uppbygging eigi jafnt við um menntamál, heilbrigðismál, samgöngumál sem og önnur mál. „Við teljum að uppbyggingin sé ekki bara réttlætismál og samfélagsmál, heldur sé hún líka mikilvæg efnahagslega til að stuðla að áframhaldandi efnahagslegri sæld í landinu,“ segir Katrín.

Þá horfi stjórnin í áætlun sinni til skattkerfisbreytingar sem eiga að geta nýst tekjulægstu hópunum. „Að tryggja félagslegan stöðugleika það er mikilvægt fyrir samtal okkar við aðila vinnumarkaðarins,“ sagði Katrín. „Til að tryggja frið á vinnumarkaði sem ég held að sé eitt brýnasta verkefnið sem við stöndum nú frammi fyrir.“

Sömuleiðis sé gert ráð fyrir verulega auknum útgjöldum til örorkulífeyrisþega á næstu árum. Samtal stjórnvalda við forsvarsmenn Öryrkjabandalagsins sé að hefjast og í fjármálaáætluninni sé gert ráð fyrir fjórum milljörðum og síðar sex milljörðum til viðbótar í þennan málaflokk. „Það er ekki bara til að mæta fjölgun, heldur líka til að bæta kjör þessa hóps. Þannig að við erum að gera ráð fyrir kjarabótum og kerfisbreytingum,“ segir Katrín. Stjórnin vilji einnig  gera öryrkjum auðveldar að komast inn á vinnumarkað, án þess þó að þvinga þá til atvinnuþátttöku og játar Katrín að krónu á móti krónu skerðingin sé eitthvað sem verði að taka til athugunar í því sambandi.

Dugar til að við sjáum breytingar

Hún bætir við að sér finnist sérlega ánægjulegt að einnig sé horft til umhverfismála í áætluninni, en gert er ráð fyrir 35% aukningu í útgjöldum til umhverfismála. „Ég er ánægð með það,“ segir hún. „Þetta er lítill málaflokkur í stóra samhenginu, en þó er um að ræða mikla innviðafjárfestingu í þessum náttúruperlum sem hafa svo  sannarlega mætt afgangi og hins vegar fjárfestingu í loftslagsmálum og það veitir ekkert af. Við höfum sett okkur stór markmið um kolefnishlutleysi sem við höfum ekki verið að náð hingað til,“ segir hún og bætir við að Ísland hafi heldur ekki náð að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. „Þannig að þarna þarf alvörufjárfestingu.“

Spurð hvort fjögurra milljarða fjárveitingin sem gert er ráð fyrir dugi til þess, segir hún: „Ég held að að svigrúmið sem við erum að gera ráð fyrir þar muni alla vega duga til þess að við sjáum breytingar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert