Nota krabbakló til að rífa þakið

Slökkviliðsmenn að störfum í Miðhrauni í Garðabæ.
Slökkviliðsmenn að störfum í Miðhrauni í Garðabæ. mbl.is/Eggert

Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu hefur leigt vörubíl með svokallaðri krabbakló af málmendurvinnslunni Furu vegna eldsvoðans í Miðhrauni. Bíllinn er nýkominn á vettvang og ætlar slökkviliðið að nota tækið til að rífa þá hluta af þakinu sem eru við það að hrynja niður, þannig að auðveldara sé fyrir slökkviliðismenn að athafna sig. 

Þetta segir Lárus Pedersen, aðstoðarvarðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu en aðgerðastjórn hefur verið virkjuð í Skógarhlíð vegna eldsvoðans.

Slökkviliðsmenn að störfum.
Slökkviliðsmenn að störfum. mbl.is/Eggert

Vaktaskipti í hádeginu 

Að sögn Lárusar voru vaktaskipti hjá slökkviliðsmönnum núna í hádeginu. Fyrsti hópurinn sem glímdi við eldinn er kominn inn á slökkvistöðina í Hafnarfirði og hvílir sig á meðan aðrir taka við. Reiknað er að með að fyrsti hópurinn snúi aftur til starfa eftir um tvær klukkustundir.

mbl.is/Jóhann

75 frá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu

Um 75 manns eru að störfum frá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu vegna eldsvoðans. Auk þess eru slökkviliðsmenn á staðnum frá brunavörnum Árnessýslu, brunavörnum Suðurnesja og frá slökkviliði Keflavíkurflugvallar.

Slysavarnarfélagið Landsbjörg útvegaði slökkviliðinu stjórnstöðvarbíl sem það notar til að stjórna aðgerðum á vettvangi. Engir frá félaginu eru þó á vettvangi.

Tveir starfsmenn Rauða kross Íslands eru einnig hluti af aðgerðastjórninni og eru til taks ef þörf er á.

mbl.is/Gunnlaugur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert