„Ofboðslega leiðinlegt og sorglegt“

Slökkviliðsmenn að störfum í Miðhrauni.
Slökkviliðsmenn að störfum í Miðhrauni. mbl.is/Ásdís

„Þetta er ofboðslega leiðinlegt og sorglegt. Þetta bætir vinnu ofan á það starf sem við erum að vinna,“ segir Valgerður Valgeirsdóttir, formaður Dýrahjálpar Íslands.

Félagið leigir þrjú pláss í Geymslum.is fyrir nær allar eigur sínar og líklegt er að þær séu allar ónýtar eftir eldsvoðann í húsakynnum fyrirtækisins í Miðhrauni.

„Þetta bætir ofan á álagið sem er til staðar. Við sjáum fram á að það sé ekki skemmtilegasti tíminn framundan en það eru rosalega margir búnir að hafa samband við okkur og vilja aðstoða og gefa. Við erum mjög snortin.“

Valgerður Valgeirsdóttir, formaður Dýrahjálpar Íslands, með heimilishundunum.
Valgerður Valgeirsdóttir, formaður Dýrahjálpar Íslands, með heimilishundunum. mbl.is/Eggert

Bíða eftir fregnum

Í tilkynningu á Facebook-síðu Dýrahjálpar Íslands kemur fram að félagið sé ánægt með að heyra að engin slys hafi orðið á fólki í eldsvoðanum. Núna sé beðið eftir því að vita hvort einhverjar af eigum félagsins séu óskemmdar.

„Nær allar eignir Dýrahjálpar hafa verið geymdar þarna síðustu ár; búr, bæli, fóður, ólar, kattaklósett, kattasandur, og óendanlega mikið af dóti sem okkur hefur verið gefið í gegnum árin. Allt sem er nauðsynlegt til þess að við getum sinnt starfi okkar,“ segir á Facebook-síðunni.

Mikil áhrif á starfsemina

Valgerður segir ólíklegt að félagið fái eitthvað af eigunum til baka. Ein geymslan var full af fóðri og það er væntanlega allt ónýtt. Örmerkjaskanni var einnig geymdur í annarri geymslu. 

Eldsvoðinn mun að vonum hafa mikil áhrif á starfsemi Dýrahjálpar Íslands. Að sögn Valgerðar er félagið hvergi með skrifstofu. Allar eigur þess hafi verið geymdar á miðlægum stað í Geymslum.is. Sjálfboðaliðar hafi getað nálgast þær þar með auðveldum hætti, nánast hvenær sem er sólarhringsins.

Valgerður reiknar með að hefja söfnun síðar til geta haldið starfseminni áfram en fyrst þarf það að útvega félaginu nýjan geymslustað.

Hún segir að eigur þess sem voru geymdar í Geymslur.is hafi ekki verið tryggðar. 

mbl.is/Eggert

Stefna enn á opnun dýraathvarfs í sumar

Markmið Dýrahjálpar Íslands er að leitast við að sjá dýrum sem þarfnast heimilis fyrir skjóli og stofna til þess dýraathvarf og að vinna almenning í landinu til fylgis og stuðnings við dýravernd. Tíu ár eru síðan félagið var stofnað og eru um 15 sjálfboðaliðar í virkir í utanumhaldi.

Að sögn Valgerðar stóðu vonir til að opna dýraathvarf í sumar í samvinnu við sveitarfélög og/eða ríkið. Hún ætlar ekki að láta eldsvoðann setja þau áform í uppnám. „Það er svo mikil þörf á því að opna athvarfið að við megum ekki við seinkun.“

mbl.is/Ásdís
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert