Opna á rafrænar ábendingar til Barnaverndar

Senda má rafræna tilkynningu til barnaverndar þegar ástæða þykir til …
Senda má rafræna tilkynningu til barnaverndar þegar ástæða þykir til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður eða verði fyrir áreitni. mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Opnað hefur verið fyrir rafrænar ábendingar til Barnaverndar á tilkynningasíðu sem sett hefur verið upp á vef Reykjavíkurborgar. Segir í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg að á síðunni sé hægt að velja rafrænan ábendingahnapp eftir eðli mála.

Þannig sé hægt að senda tilkynningar til Barnaverndar þegar ástæða þykir til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir áreitni, ofbeldi eða að barnið stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu.

Annar hnappur á síðunni er síðan vegna tilkynninga ef ástæða er til að ætla að atferli starfsfólks, sem starfa sinna vegna hefur samskipti við börn, sé stórlega ábótavant.

Þriðji og síðasti hnappurinn á síðunni leiðir fólk síðan yfir á sambærilega síðu á ensku og pólsku.

Er síðan hluti af aðgerðaáætlun velferðarsviðs Reykjavíkurborgar um barnaverndarúrræði og aðra þjónustu við börn í kjölfar máls sem upp kom vegna starfsmanns, sem starfaði með börnum.

Áfram er þó einnig hægt að tilkynna til Barnaverndar Reykjavíkur í síma 411 1111 og í 112 í neyðartilvikum eftir lokun og einnig er hægt að senda á netfangið, barnavernd@reykjavik.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert