Starfsmenn eiga mikið hrós skilið

Mikinn reyk lagði yfir stórt svæði vegna brunans.
Mikinn reyk lagði yfir stórt svæði vegna brunans. mbl.is/Eggert

Marel varð að færa dagskrá vegna hins árlega Marel dags, sem haldinn var í dag, úr höfuðstöðvum sínum í Garðabæ yfir í Hörpu, vegna stórbrunans í Garðabæ. Þar komu saman þeir 650 starfsmenn starfsmenn Marel sem staðsettir eru á Íslandi og áttu stefnumót við samstarfsfélaga.

Í frétt á heimasíðu Marel kemur fram að ákveðið hafi verið með stuttum fyrirvara að færa dagskrána og það hafi tekist vonum framar. 

Eldurinn kom upp í húsnæði sem hýsti Geymslur, Iceware og lítinn hluta af starfsemi Marel. Eldsupptök eru óljós en eldurinn breiddist út yfir í þann hluta hússins sem Marel hefur til leigu. Um 50 starfsmenn Marel höfðu aðsetur í húsnæðinu, en þeir eru allir óhultir. Skiptu rétt viðbrögð þar sköpum.

„Ef einhvern tíma var dagur til að sýna samheldni og samstarf í verki, þá var það í dag og eiga allir starfsmenn okkar mikið hrós skilið. Starfsmenn sem stóðu að skipulagningu, starfsfólk viðburðafyrirtækisins PROevents og starfsfólk Hörpu á einnig okkar bestu þakkir fyrir mikið hugvit og snarræði við að gera gott úr deginum. Óhætt er að segja að Marel dagurinn hafi heppnast sérlega vel í ár og sýnir hann vel þann kraft og samheldni sem ríkir í fyrirtækinu,“ segir í fréttinni.

Þar segir jafnframt að boðið hafi verið upp á fjölda áhugaverða fyrirlestra á breiðum grunni, s.s. um starfsemi og stefnu Marel, áhugaverðar nýjungar í vöruþróun og hvernig rækta má sinni innri mann, t.d. með hláturjóga og breytingastjórnun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert