Notar læknagenin áfram

Alma D. Möller landlæknir segist líta á nýja starfið sem …
Alma D. Möller landlæknir segist líta á nýja starfið sem framlengingu af því gamla. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það voru töluverð umskipti fyrir Ölmu D. Möller þegar hún tók við embætti landlæknis í byrjun mánaðarins. Frá því hún höf störf sem læknir á Landspítalanum árið 1988 hefur Alma verið í eldlínunni, m.a. sem yfirlæknir á gjörgæsludeild og framkvæmdastjóri aðgerðasviðs en á sínum tíma var hún líka fyrsta konan til að starfa sem þyrlulæknir hér á Íslandi. Alma er einnig fyrsta konan til að gegna embætti landlæknis hér á landi og í hópi sárafárra kvenkyns landlækna á heimsvísu.

Þrátt fyrir að hún muni verja vinnudeginum á bak við skrifborð næstu árin lítur Alma samt á nýja starfið sem eins konar framlengingu af því gamla.

„Ég hef mest starfað á gjörgæslunni þar sem við höldum fólki á lífi með alls kyns vélum og inngripum. Þar er gríðarlega mikið gert fyrir tiltölulega fáa sjúklinga, og um að ræða dýrasta form þjónustu í heilbrigðiskerfinu. Þegar ég síðan fór í nám í lýðheilsustjórnun skrifaði ég um lýðheilsu út frá sjónarhóli gjörgæslulæknis og áætlaði þar að um 70-80% tilvika sem gjörgæslan sinnir tengist lífsstílstengdum atriðum, og sjúkdómum sem hægt væri að fyrirbyggja. Bætt lýðheilsa er eitt af verkefnum landlæknisembættisins svo ég ég lít þannig á að ég muni halda áfram að nota læknagenin í mér til að bæta heilsu fólks, en bara með öðrum leiðum.“

Fíknivandinn snertir okkur öll

Af málaflokkum sem eru sérstaklega aðkallandi nefnir Alma misnotkun lyfja og fíkniefna. Virðist sá vandi fara vaxandi og reglulega fréttir berast af fólki sem hefur fallið frá í blóma lífsins vegna fíknar og hættulegra efna.

„Þetta er vissulega ömurleg staðreynd og málefni sem snertir okkur öll. En um leið er um flókið vandamál að ræða og einfaldar lausnir ekki í boði. Heilbrigðisráðherra hefur sett saman starfshóp sem skipaður er okkar fremstu sérfræðingum á þessu sviði til að gera aðgerðaáætlun. Þetta er heilsufarsvandi sem landlæknisembættið mun svo sannarlega setja í forgang og m.a. það sem embættið getur gert til að stuðla að skynsamlegri notkun og ávísun lyfja.“

Ekki fráhverf einkarekstri

Íslenska heilbrigðiskerfið glímir líka við skort á starfsfólki og segir Alma að samkvæmt nýlegri skýrslu Ríkisendurskoðunar séu yfir 200 stöðugildi hjúkrunarfræðinga ómönnuð, bæði við Landspítalann og hjúkrunarstofnanir úti á landi. Bendir Alma á að hluti af lausninni kunni að vera að hækka laun stéttarinnar en grunnlaun hjúkrunarfræðinga eru í dag 12% lægri en laun sambærilegra stétta hjá BHM. 

Alma er ekki fráhverf einkarekstri í heilbrigðiskerfinu en segir að vantað hafi skýrari stefnu um útvistun verkefna.

„Mikilvægt er að útvistunin sé á forsendum almannahagsmuna og sjúklinganna sjálfra og þyrfti að skilgreina betur hvaða þjónustu ríkið kaupir hverju sinni, bæði hvað varðar magn og gæði. Einkarekstur hefur kosti, eins og aukið aðgengi og valfrelsi fyrir sjúklinga og starfsmenn og að létta álagi af opinberum stofnunum, en það má ekki skauta yfir gallana og t.d. er ekki gott í svona litlu landi að dreifa verkefnunum of mikið, þá sérstaklega sérhæfðum verkefnum. Það má alls ekki haga útvistuninni þannig að við hættum á að veikja getu opinberra stofnanir til að sinna þeim hlutverkum sem þeim er ætlað að sinna.“

Viðtalið í heild birtist í Morgunblaðinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert