19 ljósmæður hafa sagt upp störfum

19 ljósmæður hafa sagt upp störfum á Landspítala.
19 ljósmæður hafa sagt upp störfum á Landspítala. mbl.is/Hanna

Alls 19 ljósmæður hafa sagt upp störfum á Landspítala frá því í mars, eða um 13% þeirra sem eru starfandi á spítalanum. Þá hafa stjórnendur spurnir af því að fleiri íhugi uppsagnir og aðrar muni ekki framlengja tímabundna ráðningarsamninga.

Þetta kemur fram í svari Landspítala við fyrirspurn mbl.is. 

Í pistli Páls Matthíassonar, forstjóra Landspítala, sem birtist fyrir helgi kom fram að á þriðja tug ljósmæðra hefðu sagt upp störfum. Í svarinu til mbl.is kemur fram að þá hafi þau ekki fengið nákvæmar upplýsingar. Taldar hafi verið saman þær sem segjast ætla að segja upp og þær sem hafi þegar sagt upp störfum. 

Enn fremur segir Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður forstjóra, uppsagnir teknar mjög alvarlega þar sem hætta sé á því að ákveðinn hópur skili sér ekki aftur til starfa þó ákvörðun um uppsögn sé tekin á þessum tíma.

Í samtali við mbl.is í gær sagðist Katrín Sif Sig­ur­geirs­dótt­ir, sem sit­ur í stjórn Ljós­mæðrafé­lags Íslands, eiga von á fleiri upp­sögn­um á næstunni. 275 ljós­mæður eru starf­andi hér á landi, þar af tæp­lega 150 á Land­spít­al­an­um. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert