„Aðför að kvennastétt í heilbrigðiskerfinu“

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna. mbl.is/Hari

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, segir það hryggilegt að horfa upp á þrautagöngu ljósmæðra undanfarin ár þegar kemur að kjarasamningaviðræðum við ríkið.

Rósa Björk ræddi stöðu kjaraviðræða ljósmæðra við ríkið á Alþingi í dag. „Í þessari lotu nú hafa þær beðið eftir kjarasamningum í hálft ár. Síðasti samningafundur fyrir tæpri viku endaði með hvelli.“

Hún sagði í ræðu sinn að svo virðist sem konum í kvennastétt sé refsað af hálfu hins opinbera fyrir að bæta við sig námi. Í yfirlýsingu sem Félag ljósmæðra sendi frá sér í morgun er meðal annars bent á að hjúkrunarfræðingar sem bæta við sig prófi í ljósmóðurfræði geta þurft að taka á sig launalækkun í starfi ljósmóður.

Frétt mbl.is: Saka ráðherra um „kaldar kveðjur“

„Ég trúi því varla að við séum í enn eitt skiptið að horfa upp á aðför að kvennastétt í heilbrigðiskerfinu. Ég trúi því varla að við séum að sjá í enn eitt skiptið skýrasta form kerfislægs kynjamisréttis í samfélagi okkar, samfélagi sem ber sér stöðugt á brjóst fyrir að vera meistarasamfélag þegar kemur að jafnrétti kynjanna,“ sagði Rósa Björk.

Hún hvatti fjármálaráðherra til að ganga til samninga við ljósmæður hið fyrsta og þá hvatti hún einnig heilbrigðisráðherra til að stuðla að lausn mála þannig að ljósmæður gangi sáttar frá samningaborðinu. „Þær eiga það sannarlega skilið frá okkur öllum,“ sagði Rósa Björk að lokum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert