Alzheimersamtökin vilja fleiri pláss

Áætla má að um fjögur þúsund manns séu með minnissjúkdóma …
Áætla má að um fjögur þúsund manns séu með minnissjúkdóma á Íslandi. AFP

Alzheimersamtökin hafa óskað eftir því við heilbrigðisráðherra að þau fái heimild fyrir tuttugu plássum í viðbót í dagdvöl fyrir einstaklinga með heilabilun.

Ef heimildin fæst samþykkt stefnir stjórn samtakanna á opnun nýrrar rekstrareiningar í Garðabæ, „þar sem veruleg þörf er fyrir hendi“, að því er kemur fram í bréfi  Alzheimersamtakanna til fjölskylduráðs Hafnarfjarðar.

Í dag eru níu einstaklingar frá Garðabæ í átta plássum í Drafnarhúsi í Hafnarfirði og 23 til viðbótar þaðan eru á biðlista.

Alls eru 54 manneskjur á biðlista í Drafnarhúsi.

Stjórnarfundur Alzheimersamtakanna fór fram í síðustu viku þar sem tekin voru fyrir húsnæðismál dagdvalar samtakanna í Drafnarhúsi. Stjórnarmenn voru sammála um að besti kosturinn væri að halda rekstrinum áfram í sömu húsakynnum og verið hefur fram að þessu. Húsnæðið hefur verið til afnota fyrir starfsemina endurgjaldslaust.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert

Biðlistinn gæti farið í 200 manns

„Stjórnin metur það svo að ekki fáist staðfesting frá ráðuneyti fyrr en í fyrsta lagi á haustmánuðum, eða þegar einhver mynd verður komin á fjárlagagerð fyrir árið 2019. Í umsókn samtakanna var jafnframt tekið fram að ef ekki næðust samningar við Garðabæ um opnun dagdvalar þá væri biðlistinn á höfuðborgarsvæðinu tæplega 200 manns þannig að samtökin myndu þá snúa sér til annarra sveitarfélaga á svæðinu,“ segir í bréfinu.

Fjölskylduráð Hafnarfjarðarbæjar hefur falið sviðsstjóra að taka til skoðunar þörf á dagdvalarrýmum vegna þjónustu við fólk með heilabilun.

Fram kemur í fundargerð að biðtími eftir þjónustu sé allt að eitt ár og biðlistinn langur. Fjölskylduráð leggur áherslu á að biðtíminn verði ekki lengri en þrír mánuðir að jafnaði.

Alzheimersamtakanna reka þrjú hús með dagdvalarrýmum fyrir heilabilaða. Auk Drafnarhúss er um að ræða Fríðuhús og Maríuhús í Reykjavík. Önnur sveitarfélög og ríkið reka fimm hús af þessu tagi til viðbótar.

Vilborg Gunnarsdóttir.
Vilborg Gunnarsdóttir. Ljósmynd/Alzheimersamtökin

Yfirvöld þurfi að marka stefnu

Vilborg Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Alzheimersamtakanna, segir í samtali við mbl.is að biðlistinn í þeirra húsum sé 8 til 12 mánuðir að jafnaði og hann fari stækkandi. 

Hún segir aðstandendur bíða með það að sækja um plássin þar til í lengstu lög. Sumir þeirra hafi þurft að hætta störfum sínum úti á vinnumarkaði til að sinna veikum einstaklingi og þá séu þessi heimili fyrstu úrræðin áður en sótt er um hjúkrunarrými. „Þannig að þessi bið verður óskaplega löng og erfið,“ greinir Vilborg frá.

Hún bendir á mannfjöldaspár þar sem kemur fram að fjölga mun hratt í þessum aldurshópi í náinni framtíð. Þar af leiðandi mun þeim fjölga hlutfallslega sem þurfa á þessum úrræðum að halda. „Við erum að þrýsta mjög á yfirvöld um að marka stefnu í málefnum þessa fólks, af því að sú stefna er ekki til,“ segir hún.

Alzheimersamtökin vilja opna nýja rekstrareiningu í Garðabæ.
Alzheimersamtökin vilja opna nýja rekstrareiningu í Garðabæ. mbl.is/Ómar Óskarsson

Virkni fellur niður á hjúkrunarheimilum

Vilborg bendir á að engin tölfræði sé til um hversu margir séu greindir minnissjúkdóma á Íslandi. Áætla megi að einstaklingarnir séu um fjögur þúsund talsins.

Hún segir mikla og góða starfsemi fara fram í dagdvalarrýmum fyrir heilabilaða og nefnir að aðstandendur hafi sagt að þegar skyldmenni þeirra fari þaðan yfir á hjúkrunarheimili detti virkni þeirra oft niður.

Um afstöðu stjórnvalda segir Vilborg að velviljinn þar og áhuginn sé mikill. „Þessi málaflokkur nýtur sem betur fer aukins skilnings hjá yfirvöldum. Við bindum miklar vonir við að á næstu árum verði bætt í,“ segir hún og er ánægð með viðbrögð Hafnarfjarðarbæjar við erindi samtakanna. Bætir hún því við að viðræður bæði við Garðabæ og ríkið séu í gangi um fleiri pláss.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert