Fá formlegt forræði yfir máli Sunnu Elviru

Karl Steinar Valsson yfirlögregluþjónn segir lögreglu munu þurfa að skoða …
Karl Steinar Valsson yfirlögregluþjónn segir lögreglu munu þurfa að skoða hvort að spænsku gögnin gefi tilefni til að yfirheyra fleiri. mbl.is/Eggert

Íslenska lögreglan mun á næstu dögum fá formlegt forræði yfir rannsókninni á máli Sunnu Elviru Þorkelsdóttur frá lögreglunni á Spáni. Þetta staðfestir Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.

Það eina sem vanti upp á að íslenska lögreglan fái forræði yfir rannsókninni sé að málsskjöl og pappírar úr spænsku rannsókninni berist til landsins.

Þegar að gögnin berist þarf síðan að þýða þau úr spænsku og mun lögreglan í framhaldinu leggjast yfir þau og skoða betur.

„Það er engin sérstök áhersla á þátt Sunnu, en við erum að átta okkur á þætti hvers og eins í málinu,“ segir Karl Steinar. Þannig muni lögregla skoða hvort það séu einhverjir fleiri sem taka þurfi afstöðu til við rannsóknina.

Sigurður Kristinsson, eiginmaður Sunnu, hefur setið í gæsluvarðhaldi frá því í janúar vegna gruns um stórfellt fíkniefnasmygl í svo nefndu skáksambandsmáli. Spænska lögreglan úrskurðaði skömmu síðar Sunnu Elviru í farbann er hún lá lömuð á spítala Spáni eftir fall á heimili sínu.

Spurður hvar rannsóknin standi segir Karl Steinar lögreglu vita ýmislegt. „Við erum með mann í gæsluvarðhaldi í málinu, en erum líka að fá þennan spænska hluta og erum þar með að taka yfir forræði í málinu í heild. Við erum hins vegar ekki enn komin með þau gögn í hendur að geta skoðað með formlegum hætti hvert rannsóknin leiðir,“ segir hann og kveður það verða gert þegar spænsku gögnin koma í hús.

Sunna kom til landsins í gær og er nú í einangrun á Grensásdeild Landspítalans. Karl Steinar segir hana ekki hafa verið beitta neinum þvingunarúrræðum eftir heimkomuna, né heldur sé hún í farbanni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert