Píratar vilja innanlandsflug úr Vatnsmýri

Píratar í Reykjavík leggja til að miðstöð innanlandsflugs flytjist úr …
Píratar í Reykjavík leggja til að miðstöð innanlandsflugs flytjist úr Vatnsmýrinni og að komið verði á hraðlest milli Keflavíkur og Reykjavíkur. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Píratar leggja til að miðstöð innanlandsflugs flytjist úr Vatnsmýrinni. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýsamþykktri stefnu Pírata í Reykjavík um miðstöð innanlandsflugsins. Áður en til þess komi þarf annar flugvöllur á suðvesturhorni landsins að hafa tekið við miðstöð innanlandsflugsins.

„Með nýsamþykktri stefnu vilja Píratar í Reykjavík hvetja stjórnmálafólk til að taka næsta skref í umræðunni um flugvöllinn og innanlandsflug,“ segir í tilkynningu frá flokknum.

Í stefnunni kemur einnig fram að Píratar í Reykjavík vilja að hraðlest milli Keflavíkur og Reykjavíkur verði skoðuð af alvöru. „Lestin myndi nýtast miðstöð innanlandsflugsins og tengja sveitarfélögin á SV-horninu saman búsetu- og atvinnulega. Hún myndi draga úr bílaumferð, vera umhverfisvæn og auka umferðaröryggi. Áfram verði unnið að rannsóknum og hagkvæmniathugunum,“ segir í stefnunni.

Stefna Pírata í Reykjavík um miðstöð innanlandsflugsins er svohljóðandi:

  1. Stefnt er að því að miðstöð innanlandsflugsins flytjist úr Vatnsmýrinni. Áður en til þess kemur þarf annar flugvöllur á suðvesturhorni landsins að hafa tekið við miðstöð innanlandsflugsins.
  2. Á meðan miðstöð innanlandsflugsins er í Vatnsmýrinni þarf að viðhalda Reykjavíkurflugvelli þannig að hann geti gegnt hlutverki sínu með sóma.
  3. Fullkanna þarf mögulegar staðsetningar miðstöðvar innanlandsflugsins á suðvesturhorninu og taka síðan ákvörðun um uppbyggingu með lýðræðislegum hætti.
  4. Hraðlest REY-KEF yrði mikil samgöngubót fyrir farþega í millilandaflugi. Lestin myndi nýtast miðstöð innanlandsflugsins og tengja sveitarfélögin á SV-horninu saman búsetu- og atvinnulega. Hún myndi draga úr bílaumferð, vera umhverfisvæn og auka umferðaröryggi. Áfram verði unnið að rannsóknum og hagkvæmniathugunum.
  5. Skoða þarf nýja staðsetningu miðstöðvar innanlandsflugsins í samhengi við mögulega hraðlest. Gæta þarf þess að skipulag lestarinnar og val á stöðvum falli vel að skipulagi og áætlun um Borgarlínu.
mbl.is