Skagamenn spurðir um strompinn

Sementsverksmiðjan á Akranesi.
Sementsverksmiðjan á Akranesi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bæjaryfirvöld á Akranesi ætla að efna til skoðanakönnunar á meðal íbúa á næstunni þar sem þeir verða spurðir hvort þeir vilji leyfa strompi Sementsverksmiðju ríkisins að standa eða ekki. Ef ákveðið verður að leyfa honum að standa er gróflega áætlað að upphafsviðhald á honum nemi 28 milljónum króna.

Reglulegt viðhald á strompinum á sex ára fresti yrði um 11 milljónir króna, samkvæmt úttekt sem verkfræðistofan Mannvit gerði fyrir Akranesbæ. Greint var frá niðurstöðum hennar á kynningarfundi á Akranesi á síðasta ári.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Að sögn Sævars Freys Þráinssonar, bæjarstjóra Akraness, munu bæjarbúar hafa í skoðanakönnuninni allar upplýsingar til hliðsjónar um kostnað við viðhald á strompinum og kostnað við niðurrif hans. Niðurstöður hennar verða nýttar af bæjarstjórninni til að ákveða hvort þetta mikla kennileiti Akraness fái að standa áfram eða ekki.

Viðræður standa yfir við verktaka um kostnað við hugsanlegt niðurrif strompsins.

Í skoðanakönnun sem vefmiðillinn Skagafréttir gerði síðasta haust kom fram að um 60 prósent vildu að strompurinn yrði rifinn niður.

Sementsverksmiðjan á Akranesi.
Sementsverksmiðjan á Akranesi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Niðurrifi á að ljúka eftir hálft ár

Niðurrif á reit Sementsverksmiðjunnar, sem var reist á árunum 1956 til 1958, er í fullum gangi. Samkvæmt upplýsingum verkeftirlits er verktakinn Work North ehf. á undan verkáætlun en niðurrifinu á að ljúka 1. október næstkomandi, eða eftir um hálft ár. 

Frá niðurrifi á reit Sementsverksmiðjunnar í byrjun ársins.
Frá niðurrifi á reit Sementsverksmiðjunnar í byrjun ársins. mbl.is/RAX

Búið að rífa niður níu mannvirki

Búið er að rífa niður níu mannvirki á Sementsreitnum af þeim fimmtán sem tilheyra verksamningi við Work North ehf., samkvæmt upplýsingum frá Akranesbæ. 

Lokið er niðurrifi á kolamóttöku, geymsluhúsi, ofnhúsi þar sem eftir á að taka í burtu sökkla og ofn, reykhreinsihúsi, leðjugeymum, reyksíuhúsi, blásarahúsi, dæluhúsi og leðjuþró.

Þar fyrir utan en niðurrif á sandfæribandahúsi að klárast, auk þess sem niðurrif á kvarnahúsi er hálfnað.

Niðurrif á efnisgeymslu, kolafæribandahúsi, kolavarnahúsi og stjórnstöð er jafnframt hafið.  

Brotajárn úr Sementsverksmiðjunni.
Brotajárn úr Sementsverksmiðjunni. mbl.is/RAX

Brotamálmum komið í skip

Eftir að niðurrifinu lýkur þarf að koma steypubrotum í sandgryfju og hreinsa þau af steypustyrktarjárni. Verktakinn hyggst koma brotmálmum í skip í áföngum.

Þráinn Freyr segir að allt járn, hvort sem það kemur úr steypunni eða annars staðar frá, verði selt. Steypan sjálf verður notuð til uppfyllingar á svæðinu, enda þarf að hækka þar landrýmið vegna fyrirhugaðra framkvæmda. Til stendur að reisa 350 íbúðir á svæðinu.

Í byrjun ársins átti verktakinn í vandræðum með að jafna fjóra leðjugeyma Sementsverksmiðjunnar við jörðu með sprengingum. Tvívegis var það reynt án árangurs og því var ákveðið að mylja sílóin niður með vélum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert