Vinur Hauks bað Alþingi um hjálp

Hanna Katrín Friðriksson og Þorsteinn Sæmundsson horfa upp í þingpalla …
Hanna Katrín Friðriksson og Þorsteinn Sæmundsson horfa upp í þingpalla á meðan Lárus Páll talar. Mynd/Skjáskot af vef Alþingis

Lárus Páll Birgisson, vinur Hauks Hilmarssonar sem er sagður hafa fallið í átökum við tyrkneska herinn í Afrin-héraði í Sýrlandi í febrúar, kvaddi sér til hljóðs á miðjum þingfundi á Alþingi rétt eftir að Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, hafði lokið ræðu sinni og skömmu áður en Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, átti að taka til máls. 

Þar hvatti hann stjórnvöld til að hjálpa honum og fleiri aðstandendum Hauks vegna hvarfs hans.

„Af hverju segir enginn neitt þegar verið er að drepa fólk af bandamönnum ykkar og ekki bara fólk, vin minn hann Hauk? Af hverju hefur enginn hjálpað okkur almennilega til að komast til botns í þessu? Hjálpið okkur í þessu,“ kallaði Lárus Páll af þingpöllunum.

Þorsteinn Sæmundsson, starfandi forseti Alþingis, bað margsinnis um þögn, án árangurs. „Forseti biður um ró á þingpöllum," sagði hann. 

Lárus Páll Birgisson.
Lárus Páll Birgisson.

„Það eina sem við þurfum er bréf sem segir að við megum fara á svæðið og leita að honum. Það er það eina sem við erum að biðja ykkur um núna. Það er fólk við landamærin. Það bíður fólk eftir að komast inn en það er verið að bíða eftir svörum frá ykkur. Við erum bandamenn ykkar. Þögn ykkar er ærandi.“

Hanna Katrín beið í pontunni á meðan Lárus Páll talaði. Þegar hún komst að hafði hún þetta að segja um uppákomuna: „Virðulegi forseti. Þetta setur málin óneitanlega í ákveðið samhengi og annað. Einhvern veginn væri ég nú alveg til í að taka frekari umræðu um þetta málefni sem var kallað hérna ofan af svölunum en við skulum halda okkur við dagskrána.“

Lárus Páll skrifaði bréf í Morgunblaðið í síðasta mánuði þar sem hann óskaði eftir aðstoð stjórnvalda.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert