Geti svarað nafnlausum símtölum barna

Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, segir að sú aukning sem varð á fjölda þeirra sem leituðu til samtakanna á síðasta ári hafi verið miklu meiri en þau bjuggust við.

Hún nefnir að 112 manns hafi verið að koma í fyrsta skiptið í fyrra og þeir hafi bæst við þá sem fyrir voru. Mun fleiri fylgdu samtökunum á milli ára en áður, eða tæplega eitt þúsund.

Fjöldi viðtala jókst einnig úr 2.200 í rúmlega 3.000, sem er meira en nokkru sinni fyrr.

„Þetta var ansi mikil törn. Ég veit ekki hvernig samstarfsfólk mitt fór að með öll þessi viðtöl en það gerði það nú einhvern veginn,“ segir Guðrún en bendir á að fræðslubeiðnir hafi verið fleiri en þau réðu við.

Hún vonast til að hægt verði að fjölga stöðugildum til að mögulegt sé að anna eftirspurn. Eins og staðan er núna er fjögurra vikna bið eftir fyrsta viðtali.

mbl.is/Hari

Stafrænt ofbeldi sýnilegra 

Spurð út í fjölgun í ákveðnum brotaflokkum umfram aðra segir Guðrún að stafrænt ofbeldi sé að verða sýnilegra, auk þess sem hlutfallslega fleiri fatlaðir voru í viðtölum í fyrra heldur en árið á undan.

Einnig nefnir hún að Stígamót hafi ekki náð til kvenna af erlendum uppruna. Þær voru um 5% þeirra sem leituðu til samtakanna í fyrra. „Við viljum ná miklu betur til þeirra.“

Alls leituðu 229 manns til Stígamóta á síðasta ári vegna nauðgunar eða nauðgunartilraunar, 27 vegna hópnauðgunar og 37 vegna lyfjanauðgunar. Til samanburðar leituðu 29 til samtakanna árið 2016 vegna hópnauðgunar og 27 vegna lyfjanauðgunar. Allar tölurnar voru unnar upp úr komuskýrslum.

Treysta sér ekki til að kæra

Guðrún segir sláandi að einungis 10% af þeim sem leita aðstoðar hjá Stígamótum kæri ofbeldið. Hluti ástæðunnar sé sú að málin eru fyrnd. Þessi tölfræði bendi til þess að þolendurnir treysti sér ekki til að kæra eða hafi ekki trú á að slíkt muni færa þeim réttlæti.

Almennt séð segist Guðrún vona að sú staðreynd hversu margir leiti sér hjálpar vegna ofbeldis hafi ákveðið forvarnargildi fyrir þá sem beiti ofbeldi. Þeir geti ekki lengur verið vissir um að ekki verði sagt frá því. Hún nefnir einnig að #metoo-byltingin hafi haft umtalsverð áhrif á fjölda þeirra sem leituðu til samtakanna á seinni hluta síðasta árs. 

Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta.
Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta. mbl.is/Árni Sæberg

Vilja vinna með börnum og  unglingum 

Hvað framtíðina varðar í starfsemi Stígamóta nefnir hún þá staðreynd að 70% þeirra sem leituðu þangað í fyrra sögðu að ofbeldið hafi byrjað áður en þeir voru 18 ára. Alls sögðu 132 að ofbeldið hafi byrjað áður en þeir voru 11 ára.

„Þetta fólk hafði oftast ekki rætt ofbeldið við sérfræðinga. Við vildum gjarnan eyða miklu púðri í að vinna með unglingum og að það séu bætt hlustunarskilyrði hjá fagstéttum,“ greinir hún frá.

Þurfi ekki að gefa upp nafn og kæra

Sömuleiðis vonast hún til að börn gætu leitað sér hjálpar án þess að þurfa að gefa upp nafn og kæra.

„Við höfum talað um að það væri þess virði að búa til tilraunaverkefni sem byggðist á því að sérfræðingar svöruðu nafnlausum símtölum barna án þess að mál væru opnuð vegna þess að það hlýtur að vera erfitt fyrir barn að sitja eitt uppi með leyndarmálið. Þá yrði verkefnið að finna með barninu leið fyrir alvöru hjálp.“

Að sögn Guðrúnar þyrfti ekki nema nokkurra tíma vakt á viku til að opna fyrir þennan möguleika, ef hann yrði kynntur í öllum skólum landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert