Ákærður fyrir að svíkja 140 milljónir úr ríkissjóði

Embætti héraðssaksóknara gefur út ákæru í málinu.
Embætti héraðssaksóknara gefur út ákæru í málinu. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Karlmaður á sextugsaldri hefur verið ákærður fyrir að hafa svikið út tæplega 140 milljónir króna með því að hafa offramtalið virðisaukaskattsskylda veltu hjá þremur félögum sem hann var í forsvari fyrir. Ná brotin frá árinu 2012 til ársins 2015.

Í ákæru málsins, sem gefin er út af embætti héraðssaksóknara, kemur fram að maðurinn hafi útbúið 22 tilhæfulausar virðisaukaskattsskýrslur fyrir fyrsta félagið þar sem hann oftaldi veltuna um 905 milljónir og innskatt um 187 milljónir. Með því sveik hann samkvæmt ákærunni 114 milljónir úr ríkissjóði.

Í tilfelli næsta félags, sem maðurinn var einnig í forsvari fyrir, er hann ákærður fyrir að hafa oftalið innskatt um 21 milljón og þannig svikið úr ríkissjóði 20 milljónir. Í tilfelli þriðja félagsins er hann sagður hafa offramtalið veltu félagsins um 17,5 milljónir og þannig svikið út 5,7 milljónir.

Er maðurinn einnig ákærður fyrir að hafa rangfært bókhald félaganna þriggja og búa til gögn sem áttu sér ekki stoð í viðskiptum við aðra aðila, í þeim tilgangi að búa til gjaldgögn sem notuð voru í formi innskatts til að fá endurgreiðslu frá ríkissjóði.

mbl.is

Bloggað um fréttina