Skora á Ragnar að taka ekki formennsku

Ragnar Þór Pétursson, verðandi formaður KÍ. Skorað er á hann …
Ragnar Þór Pétursson, verðandi formaður KÍ. Skorað er á hann að taka ekki formennsku á föstudaginn, heldur leita endurnýjaðs umboðs kennara.

Eftir hádegi í dag verða greidd atkvæði á þingi Kennarasambands Íslands um áskorun nokkurra kvenna innan Kennarasambandsins til Ragnars Þórs Péturssonar, um að taka ekki formennsku í félaginu á föstudag og fá þess í stað endurnýjað umboð kennara til að leiða sambandið vegna ítrekaðra ásakana á hendur honum, sem fram komu eftir að hann hafði verið kjörinn formaður KÍ.

Fyrrverandi nemandi Ragnars Þórs á Tálknafirði hefur sakað Ragnar Þór um að hafa sýnt sér klámefni á heimili sínu fyrir rúmum tuttugu árum. Í gær sendu tveir aðrir fyrrum nemendur Ragnars frá sér yfirlýsingu sem birtist á Stundinni og þar var Ragnar Þór sakaður um að hafa borið rangt um ýmsar staðreyndir þegar hann varðist ásökunum vegna málsins.

Ragnar Þór sagði við Morgunblaðið í gærkvöldi að hann hefði heyrt að líklegt gæti verið að áskorun til hans um að stíga niður kæmi fram á þinginu.

Kennarar á þinginu munu greiða atkvæði um hvort þingið taki undir áskorunina, eftir því sem mbl.is kemst næst. Hanna Björg Vilhjálmsdóttir, forkona í jafnréttisnefnd KÍ er ein þeirra sem standa að baki áskoruninni. Hanna segir áskoruninni vera kurteislega.

„Hún er í anda #MeToo, hún er í anda #konurtala, hún er í anda #höfumhátt og hún er kurteisleg mótmæli við þöggun,“ segir Hanna Björg og bætir því við að í áskoruninni felist stöðutaka með brotaþolum, meintum eða ekki. Kennaraþingið mun taka afstöðu til áskorunarinnar í atkvæðagreiðslu.

„Það er bara höfðað til hans, í rauninni, siðferðis,“ segir Hanna Björg í samtali við mbl.is. Reiknað er með að atkvæðagreiðslan fari fram laust eftir hádegi, en þá eru einmitt umræður á þinginu um #MeToo byltinguna og tengd málefni.

Áskorun til verðandi formanns KÍ um að leita á ný …
Áskorun til verðandi formanns KÍ um að leita á ný umboðs félagsmanna til að leiða félagið verður lögð fram á þingi félagsins á eftir. mbl.is/Hari
mbl.is

Bloggað um fréttina