Ekki annað í boði en að hætta

Arnþór Jónsson formaður SÁÁ.
Arnþór Jónsson formaður SÁÁ. mbl.is/Ómar

Arnþór Jónsson, formaður SÁÁ, segir það erfiða ákvörðun að hætta að taka við ungmennum yngri en átján ára en ef ekki er vilji fyrir því að Vogur veiti þessa þjónustu sé ekki annað í boði.

Að sögn Arnþórs verður miðað við átján ára aldur á ungmennadeildinni á Vogi eftir þetta en þangað til viðeigandi úrræði finnst muni Vogur að sjálfsögðu taka á móti börnum yngri en átján ára.

Hann segir að svo virðist vera að stjórnmálamenn og stjórnendur annarra heilbrigðisstofnana vilji gera breytingu á meðferðarúrræðum fyrir ungmenni og því verði sett aldurstakmark inn á deildina. SÁÁ sé með þjónustusamning um að veita þessa þjónustu og sinni henni áfram með þeim sem eru átján ára og eldri, segir Arnþór. 

Ekki munur á 17 ára og 19 ára 

Að sögn Arnþórs er það í höndum heilbrigðisráðherra, Svandísar Svavarsdóttur, að svara því til hvaða ráðs á að taka. En við getum ekki staðið í þessu að vera hundskömmuð fyrir að vera með þessa þjónustu sem enginn vill. Nema þá þeir sem eru að þiggja þjónustuna,“ segir Arnþór en ungmennadeildin hefur verið rekin frá 1. janúar árið 2000.

Arnþór segir engan mun vera á sautján ára krakka og þeim sem er nítján ára þegar kemur að vímuefnanotkun. Fyrir þennan sjúklingahóp er ungmennadeildin á Vogi langbesta úrræðið.

„Mörg hundruð ungmenni hafa fengið þarna frábæra þjónustu og stigið fyrstu skrefin inn í nýtt líf. Þarna starfar frábært starfsfólk sem er sérhæft í því sem það er að gera,“ segir Arnþór og segir að þau ungmenni sem þar hafi verið hafi átt fullt erindi í meðferð á Vogi.

„En maður getur ekki troðið sér þangað sem maður er ekki velkominn,“ segir Arnþór og segir að ekki sé hægt að bjóða starfsfólki á Vogi upp á að sitja stöðugt undir ákúrum sem það á ekki skilið.

Arnþór segir að það sé ekki endalaust hægt að skamma SÁÁ fyrir að það sé ekki til úrræði sem allir séu að kalla eftir fyrir ungmenni. Eins og staðan sé í dag sé ungmennadeildin á Vogi besta úrræðið fyrir þennan aldurshóp. Ef vilji er fyrir því að koma sérstökum spítala í gagnið fyrir þennan aldurshóp þá fagni SÁÁ því að sjálfsögðu.

Í til­kynn­ingu frá SÁÁ kem­ur fram að aug­ljós krafa um að ólögráða ein­stak­ling­ar geti ekki verið í sama rými og full­orðnir í meðferð sé meira en Vog­ur geti orðið við að svo stöddu. Því sé ekki stætt á að halda áfram meðferð þeirra þar. 

Gerandinn ber alltaf ábyrgð ekki sá sem brotið er á

Líkt og fram hefur komið er til rannsóknar hvort brotið hafi verið gegn 16 ára stúlku á Vogi af eldri einstaklingi. Arnþór segir að það sé alltaf þannig að ábyrgðin á broti sé aldrei hjá þeim sem verður fyrir brotinu heldur gerandanum. „Það getur enginn komið í veg fyrir þessi brot hvar sem er nema gerandinn,“ segir Arnþór.

Brot séu framin nánast alls staðar meira að segja í fangelsum þar sem hámarksöryggisgæsla er. Raunveruleikinn sé sá að gerandinn sé sá sem beri ábyrgðina og sá eini sem getur alltaf komið í veg fyrir að brot séu framin, segir formaður SÁÁ. 

mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Í greinargerð frá SÁÁ kemur fram að á síðasta ári voru 300 innritanir fólks yngri en 20 ára og ungmenni fái oftast innlögn innan 10 daga og kemur innlagnarbeiðni frá einstaklingum, aðstandendum, heilbrigðisstarfsfólki eða barnaverndaryfirvöldum.

Læknir ræðir við forráðamann strax fyrir/við innlögn. Læknir tekur móttökuviðtal, leggur mat á líkamlega og andlega heilsu og gefur fyrirmæli um gát og lyfjagjafir. Innlögn er 10 dagar eða styttri eftir aðstæðum.

„Áhersla er lögð á samvinnu og mikilvægt að ungmennum líði vel og vilji koma aftur ef á þarf að halda. Einstaklingur getur yfirgefið ungmennadeildina ef hann óskar og er þá alltaf haft samráð við lækni og forráðamenn eða aðstandendur. Fjölskylduviðtal er fyrir útskrift hjá þeim sem eru ólögráða.

Eftir útskrift á Vogi stendur ungmennum til boða áframhaldandi meðferð á Vík og/eða áframhaldandi meðferð á göngudeild. Boðið er upp á foreldrafræðslu og stuðning fyrir aðstandendur á göngudeild (4 skipti),“ segir í greinargerð SÁÁ.

Fyrstu dagana þarf oftast afeitrun með lyfjum og sinna þarf bæði líkamlegri heilsu og geðheilsu. Ef ungmenni kemur undir áhrifum þarf að fylgjast náið með hegðun og einkennum um ofskammta, síðan fráhvarfseinkennum og fylgikvillum, og meðhöndla það.

Stöku sinnum þarf dvöl á sérstakri hjúkrunargát í upphafi. Sum þeirra ólögráða, koma úr miklum félagslegum vanda auk vímuefnaneyslunnar. Innlögn á Vog er hvorki upphaf né endir á þeirri stöðu, þótt verkefnið sé að bæta hana.

Þau hafa sum hver verið í mikilli áhættuhegðun, hegðunarvanda og afbrotum og verið í umsjá barnaverndaryfirvalda og lögreglu. Þau lenda á milli í heilbrigðiskerfinu og eiga ekki vísan stað á barnadeildum eða fullorðins geðdeildum, og því oft mikill aðsteðjandi vandi fyrir barnaverndaryfirvöld.

Allt kapp er lagt á að tryggja öryggi þeirra og fá þau til samstarfs. Umgjörð deildarinnar og sérmeðferðardagskrá eru þar mikilvæg. Allt starfsfólk sjúkrahússins sinnir ungmennadeildinni daglega, þ.e.a.s. læknar, hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar, en sérstaklega sálfræðingur og ráðgjafar deildarinnar, segir í greinargerðinni.

Ungmennadeildin er á sérstökum gangi sem lokuð er öðrum sjúklingum. Allt meðferðarstarf fer fram inni á deildinni og þar er sólarhringsvakt ráðgjafa alla daga. Á deildinni er dagskrá alla daga, fræðsluerindi, hópmeðferð, samvera, verkefni og einstaklingsviðtöl.

Á deildinni starfa áfengis- og vímuefnaráðgjafar í 5,5 stöðugildum, sálfræðingur og læknir. Hjúkrunarvakt er til staðar allan sólarhringinn. Ungmennin hafa sérstaka setustofu og hugað er að fallegu umhverfi fyrir þau á deildinni. Þau fá umbun umfram aðra sjúklinga á Vogi, t.d. pitsu, sjónvarpsþætti, bíómyndir og spil.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert