Málefni United Silicon án fordæma

Frá athafnasvæði Sameinaðs sílikons hf. í Helguvík. Skýrsla umhverfis- og …
Frá athafnasvæði Sameinaðs sílikons hf. í Helguvík. Skýrsla umhverfis- og auðlindaráðherra um mál fyrirtækisins hefur verið birt á vef Alþingis. mbl.is/RAX

„Ljóst er að málefni Sameinaðs sílikons hf. eiga sér engin fordæmi hérlendis. Mikilvægt er að læra af þeirri reynslu sem hér hefur skapast,“ segir í niðurlagi skýrslu umhverfis- og auðlindaráðherra til Alþingis um aðdraganda að útgáfu starfsleyfis til kísilverksmiðju Sameinaðs sílikons hf. í Helguvík. Skýrslan var birt á vef Alþingis í dag.

Í skýrslunni segir að Umhverfisstofnun hafi aldrei haft jafnumfangsmikið eftirlit með atvinnurekstri og reynslan af því víðtæka eftirliti sem haft var með starfsemi verksmiðjunnar í Helguvík hafi þegar verið nýtt við undirbúning starfsleyfa fyrir sambærilega starfsemi á öðrum stöðum, s.s. með ítarlegri ákvæðum um varnir gegn lyktarmengun við útgáfu starfsleyfis kísilverksmiðju PCC við Bakka á Húsavík.

Einnig segir að ljóst sé að rekstraraðili Sameinaðs sílikons hf. uppfyllti ekki tilteknar kröfur í lögum og reglugerðum auk þeirra krafna sem settar voru fram af stjórnvöldum. Þá hafi útgefið byggingarleyfi og mannvirkjagerð hvorki verið í samræmi við mat á umhverfisáhrifum né gildandi skipulag. Verði af áframhaldandi starfsemi verksmiðjunnar í Helguvík þurfi rekstraraðilar að uppfylla kröfur laga og reglugerða um starfsemina.

Ríkisendurskoðun vinnur nú að úttekt og gerð skýrslu um þetta mál, þar sem kannað verður á heildstæðan hátt aðkoma og eftirlit stjórnvalda með uppbyggingu og rekstri verksmiðjunnar í Helguvík. Ríkisendurskoðun er jafnframt að skoða það sem snýr að ívilnunum stjórnvalda til starfsemi af þessu tagi.

Í skýrslu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins segir að þegar skýrsla Ríkisendurskoðunar liggi fyrir muni ráðuneytið taka til skoðunar tilmæli stofnunarinnar til ráðuneytisins og stofnana þess sem þar kunna að koma fram.

Frétt um skýrsluna á vef Stjórnarráðsins

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert