Tillögu um lengdan framboðsfrest vísað frá

Fjölmenni mætti til fundarins og röð myndaðist.
Fjölmenni mætti til fundarins og röð myndaðist. Ljósmynd/Víkurfréttir

Tillögu sem borin var upp á fjölmennum félagsfundi í Verslunarmannafélagi Suðurnesja í gærkvöldi um að frestur til að skila inn gögnum vegna stjórnarkjörs í félaginu yrði framlengdur var vísað frá, með 80 atkvæðum gegn 66, að sögn Guðbrands Einarssonar, formanns og framkvæmdastjóra félagsins.

Aðstandendur B-lista, sem hugðist bjóða fram til stjórnar félagsins í marsmánuði en náði ekki að skila inn gildu framboði að mati kjörstjórnar, söfnuðu fimmtíu undirskriftum til að knýja fram félagsfundinn. Fyrirfram var búist við fjölmennum hitafundi og af því varð.

„Þeir gerðu athugasemdir við að við værum að halda fundinn á íslensku. Sem að auðvitað við gerum í íslensku stéttarfélagi. Maður fékk á sig hróp og köll fyrir að vera útlendingahatari og annað,“ segir Guðbrandur.

„Það var mikil smölun í gangi, þeir komu held ég með heila rútu af starfsmönnum af erlendu bergi brotnu, sem skildu ekki neitt. Þeir hafa greinilega bara smalað til að greiða atkvæði með þeim.“

Guðbrandur segir að félagsmenn hafi verið meðvitaðir um að til stæði að smala á fundinn og „sem betur fer“ mætt vel og stuðningsmenn stjórnar verið í meirihluta.  

„Ég er bara ánægður með hvernig þessi fundur fór og að félagsmenn hafi stutt við bakið á félaginu sínu," segir Guðbrandur.

Guðbrandur Einarsson er formaður Verslunarmannafélags Suðurnesja.
Guðbrandur Einarsson er formaður Verslunarmannafélags Suðurnesja. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Hann segir að aðstandendur B-lista hafi lagt fram það sem þeir kölluðu „sáttatillögur“ á fundinum, en þær hafi í raun og veru bara verið „móðgun við kjörstjórn“. Að sögn Guðbrands fólu tillögurnar í sér að kjörstjórn viðurkenndi að hún hefði gert mistök við afgreiðslu framboðsgagna B-lista og „ætti liggur við að biðjast afsökunar og endurtaka kosningar.“

„Ég lagði til frávísun á þessum tillögum sem var samþykkt, 80-66. Það var mikið um framíköll og læti, við þurftum að kjósa um fundarstjóra og niðurstaðan var sú að Helgi Jóhannesson lögmaður var fundarstjóri, sem ég lagði til. Sem betur fer náðum við að halda fundarstjórninni,“ segir Guðbrandur um þennan átakafund.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert