Dæmdur fyrir að hrinda manni á dansgólfi

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt mann fyrir stórfellda líkamsárás á dansgólfi …
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt mann fyrir stórfellda líkamsárás á dansgólfi skemmtistaðarins Spot í Kópavogi. mbl.is/Ófeigur

Karlmaður á fertugsaldri hefur verið dæmdur í tíu mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir stórfellda líkamsárás á dansgólfi skemmtistaðarins Spot í Kópavogi. Árásin átti sér stað fyrir fjórum árum þegar maðurinn hrinti öðrum manni með báðum höndum svo hann skall í gólfið. Maðurinn hlaut lífshættulega höfuðáverka og heilaskaða við fallið.

Í dómnum segir að afleiðingar árásarinnar fyrir hinn slasaða hafi verið gríðarlega miklar. Hann hlaut meðal annars heilamar,  yfirborðsáverka á litla heila, blóðsöfnun undir heilahimnu á gagnauga hægra megin og blæðingu milli heilahólfa.

Þá hlaut hann innkýlt brot í hnakkablaðinu og loft inni við bein rétt framan við Pétursbeinið sem leiddi til heilaskaða. Áverkarnir leiddu einnig til varanlegrar heyrnarskerðingu á hægra eyra, tapi á lyktar- og bragðskyni, hægari hugsun, gloppóttu minni, kvíða og þunglyndi, auk skerðingar á andlegu og líkamlegu þoli og úthaldi.

Í niðurstöðu dómsins segir að afleiðingar ofbeldisins verði raktar til gáleysis en maðurinn hafi samt sem áður haft ásetning til að beita ofbeldis. „Ákærða mátti vera ljóst að það að hrinda ölvuðum manni fyrirvaralaust aftur fyrir sig gæti haft í för með sér afleiðingar. Hins vegar verður að telja varhugavert að honum hafi mátt vera ljóst að þær yrðu svo alvarlegar og víðtækar sem raun bar vitni,“ segir í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur. Þá kemur einnig fram í dómnum að árásin hafi verið tilefnislaus.

Málið hefur áður verið tekið fyrir í héraðsdómi. Maðurinn var dæmdur í eins árs fangelsi í október 2016, þar af níu mánuði skilorðsbundna. Dómurinn var ógiltur af Hæstarétti þar sem dómarinn hafði dóminn ekki fjölskipaðan.

Þolandinn fór fram á tæpar 52 milljónir króna í skaðabætur þegar málið var tekið fyrir upprunalega. Krafan hefur verið aðskilin málinu og er rekin fyrir dómi sem aðskilið einkamál.

Hér má lesa dóminn í heild sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert