Formaður KÍ skammaði fjölmiðla

Ragnar Þór Pétursson, nýr formaður Kennarasambands Íslands.
Ragnar Þór Pétursson, nýr formaður Kennarasambands Íslands. mbl.is/valli

Ragnar Þór Pétursson hélt sína fyrsta ræðu sem formaður Kennarasambands Íslands við lok sjöunda þings KÍ á sjötta tímanum í dag. Skömmu áður hafði þingsályktunartillögu þess efnis að skorað yrði á Ragnar að taka ekki við formennsku í félaginu og boða til nýs formannskjörs verið vísað frá með naumum meirihluta atkvæða.

„Ég hef aldrei á ævinni verið á jafn löngum fundi þar sem ég hef talað jafn lítið,“ sagði Ragnar Þór í upphafi ræðu sinnar. Hann sagðist ætla að sýna þeirri afstöðu virðingu, sem atkvæðagreiðslan undir lok þingsins hefði snúist um.

„Ég heyrði þetta alveg, ég skil ykkur alveg, þið hafið alveg lög að mæla og ég mun leggja mig allan fram um að taka þann bardaga með ykkur sem þið brennið fyrir og birtist í þessum, hvað skal segja, átökum,“ sagði Ragnar Þór.

Anna María Gunnarsdóttir, varaformaður KÍ, og Ragnar Þór Pétursson, formaður …
Anna María Gunnarsdóttir, varaformaður KÍ, og Ragnar Þór Pétursson, formaður KÍ. mbl.is/Valli

Ofboðslega skrítnir tímar

„Þetta eru búnir að vera ofboðslega skrítnir tímar, þetta er í fyrsta sinn sem papparassar ráðast á mig þegar ég labba einhversstaðar inn,“ sagði formaðurinn og beindi orðum sínum að ljósmyndurum og kvikmyndatökumönnum við sviðið. Hann sagðist verða að skamma fjölmiðla.

„Menntun er undirstaða alls í samfélaginu og þið komið bara hlaupandi þegar það er drama,“ sagði Ragnar við gríðarleg fagnaðarlæti þingfulltrúa í salnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert