„Hótanir og þrýstingur afþakkaður“

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.
Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég veit ekki til þess að fordæmi sé fyrir því að þingmenn annarra ríkja sendi formlegt bréf til sendiráðs Íslands til að tjá sig um þingmál sem eru til umræðu hverju sinni. Það væri áhugavert að vita hvort slík fordæmi séu til og hvort íslenskir þingmenn hafi sent sendiráðum erlendra ríkja sambærileg skilaboð vegna tiltekinna mála. Við fyrstu sýn lítur þetta út sem argasti yfirgangur.“

Þetta ritar Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, á Facebook-síðu sinni vegna frétta af því að bandarískir þingmenn hafi sent bréf til íslenska sendiráðsins í Bandaríkjunum og hvatt ríkisstjórn Íslands til þess að stöðva frumvarpið um bann við umskurði drengja sem liggur fyrir á Alþingi. Silja fer fyrir þverpólitískum hópi þingmanna sem stendur að frumvarpinu.

„Íslenskir þingmenn hafa fullt frelsi til að leggja fram mál sem þeim þykir nauðsynlegt að ræða á hinu háa Alþingi og mögulega setja ný lög eða breyta lögum. Það er hluti af lýðræðislegu samtali og þróun lýðræðislegs samfélags. Í því felst hlutverk þingmanna,“ segir hún ennfremur. Frumvarpið sé nú til meðferðar hjá allsherjar- og menntamálanefnd þingsins þar sem verið sé að fara yfir fjölmargar umsagnir um það. Tíma taki að fara vel yfir þær.

„Fjölmargar umsagnir bárust nefndinni sem þarf að fara vandlega yfir, og það tekur tíma. Mörgum spurningum er ósvarað, m.a. hvort slíkt bann við ónauðsynlegum aðgerðum á börnum eigi frekar heima í heilbrigðislögum eða barnaverndarlögum, hvort nota ætti annað orð yfir aðgerðir á kynfærum drengja en stúlkna, hver refsiramminn eigi að vera o.s.frv.“

Málið sé þannig til skoðunar hjá Alþingi þar sem til staðar séu mjög lýðræðislegir ferlar sem fylgt sé í hvívetna. „Erlendir og innlendir aðilar hafa fengið að koma að sínum sjónarmiðum í umsögnum til nefndarinnar. Allar umsagnir eru á heimasíðu Alþingis sem og önnur gögn málsins. Nú þarf Alþingi rými til að vinna sína vinnu. Allar hótanir og þrýstingur eru vinsamlegast afþakkaður."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert