Lögreglustjóri þarf að bera vitni

Héraðsdómur Suðurlands.
Héraðsdómur Suðurlands. mbl.is/Sigmundur Sigurgeirsson

Lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum, Páley Borgþórsdóttir, þarf að bera vitni í heimilisofbeldismáli fyrir Héraðsdómi Suðurlands. Þetta er niðurstaða Landsréttar og er í samræmi við úrskurð héraðsdóms. 

Úrskurður Landsréttar er birtur á vef dómsins en þar er lögreglustjórinn ekki nafngreindur en Fréttablaðið nafngreinir Páleyju í blaði dagsins.

Í úrskurði Landsréttar kemur fram að Páley hafi gefið formlega skýrslu hjá lögreglu. Í ljósi þess sem þar kemur fram og sakargagna að öðru leyti er ekki unnt að útiloka að hún geti borið um atvik sem þýðingu hafi við úrlausn málsins.

Karlmaður er ákærður fyrir að hafa beitt bæði eiginkonu sína og dóttur ofbeldi í desember 2016. Páley var á bakvakt nóttina þegar málið kom upp og kom á lögreglustöð og var þar við störf vegna málsins, hafði bein afskipti af málinu og gaf m.a. fyrirmæli til lögreglumanna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert