Spyr um kostnað og dvalartíma hælisleitenda

Ólafur Ísleifsson, þingmaður Flokks fólksins.
Ólafur Ísleifsson, þingmaður Flokks fólksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ólafur Ísleifsson, þingmaður Flokks fólksins, hefur sent dómsmálaráðherra tvær fyrirspurnir varðandi hælisleitendur. Annars vegar spyr hann um útgjöld vegna hælisleitenda og hins vegar fjölda hælisleitenda og dvalartíma þeirra hér á landi.

Hver voru árleg heildarútgjöld ríkissjóðs og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu árin 2012–2017 vegna málefna hælisleitenda og hverjir eru einstakir þættir þeirra útgjalda á sviði löggæslumála, landamæravörslu, skólamála, heilbrigðismála og velferðarmála?“ spyr Ólafur í fyrri fyrirspurn sinni.

Síðan spyr hann um fjölda hælisleitenda hér á landi og hversu margir hafi fengið hæli á árunum 2012-2017. Ólafur spyr um meðaldvalartíma þeirra hælisleitenda sem var synjað um hæli á áðurnefndu tímabili og hver lengsti dvalartíminn hafi verið. 

Hvaða þættir hafa helst áhrif á dvalartíma hælisleitenda? Hvað hafa stjórnvöld gert til þess að stytta dvalartímann, hver er árangur þeirra aðgerða og hvaða aðgerðir eru fyrirhugaðar?“ spyr Ólafur.

Hann veltir því fyrir sér hvort stjórnvöld ætli að gera eitthvað til að fyrirbyggja endurkomur hælisleitenda sem snúa aftur eftir að þeim hefur verið synjað um vernd og þeir fengið lögreglufylgd úr landi. Einnig spyr hann um fjölda og meðaldvalartíma hælisleitanda sem hafa komið aftur eftir synjun á árunum 2012-2017.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert