Tregða að byggja á tveimur stoðum

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tvennt ógnar samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES) fyrst og fremst að sögn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra. Annars vegar það að Evrópusambandið skuli ekki leggja áherslu á tveggja stoða kerfi samningsins og hins vegar viðleitni stuðningsmanna inngöngu í sambandið á Íslandi og Noregi til að tala niður samninginn.

Þetta sagði Guðlaugur Þór í umræðum á Alþingi seint í gærkvöldi um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar þar sem rætt var um framlög til utanríkisþjónustunnar. Tveggja stoða kerfið er kjarni EES-samningsins og felur í sér að aðildarríki samningsins sem standa utan Evrópusambandsins skuli heyra undir stofnanir á vegum Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) en ekki sambandsins. Auk Íslands eru Noregur og Liechtenstein í EES í gegnum EFTA.

„Varðandi öflugari framkvæmd EES-samningsins að þá held ég að mestu ógnirnar sem standi að EES-samningnum sé annars vegar það að ESB hefur verið, ég veit ekki hvaða orðalag á að nota en þeir hafa allavega ekki verið mjög... ég veit ekki hvort að grafa undan með því að leggja ekki áherslu á tveggja stoða kerfið sem er byggt upp í EES-samningnum.“

Erfitt hefði að minnsta kosti verið að eiga við Evrópusambandið í þeim efnum sagði utanríkisráðherra og vísaði í ummæli Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra í þeim efnum í umræðum á Alþingi í febrúar þar sem Bjarni gagnrýndi Evrópusambandið harðlega fyrir að grafa undan tveggja stoða kerfi EES-samningsins með því að krefjast í sífellt fleiri málum að EFTA/EES-ríkin samþykktu að gangast undir beina yfirstjórn stofnana þess.

Tekið upp 13,4% af regluverki ESB

„Það er bara ekki í samræmi við EES-samninginn,“ sagði Guðlaugur Þór. „Síðan er hin ógnin, það eru ESB-sinnar bæði á Íslandi og í Noregi sem hafa verið að tala niður samninginn. Og það er bara mjög vont,“ sagði Guðlaugur og bætti við að til að mynda væri það alrangt að í gegnum samninginn tæki Ísland upp 90% af regluverki Evrópusambandsins. Hlutfallið væri 13,4%.

„Þetta er lagt fram með þessum hætti til þess að reyna að búa það til að þetta sé svo kolómögulegur samningur að við verðum að ganga í Evrópusambandið til þess að hafa einhver áhrif á þessu svæði. Þetta eru helstu ógnirnar sem eru varðandi EES-samninginn. Það er þetta, bæði tregða Evrópusambandsins til þess að byggja á tveggja stoða kerfinu sem lagt er upp með og þegar ESB-sinnar á Íslandi og í Noregi eru að grafa undan EES-samningnum eins og við þekkjum á undanförnum árum og áratugum.“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, brást við ummælum Guðlaugs Þórs og sagði að hann ætti að tala við eigin flokksmenn þegar kæmi að gagnrýni á EES-samninginn. Þannig hefði verið fundur í vikunni í atvinnuveganefnd Sjálfstæðisflokksins þar sem talað hefði verið gegn þátttöku í þriðja orkumálapakka Evrópusambandsins í gegnum samninginn.

Guðlaugur Þór svaraði því að þarna hefði hann greinilega komið við viðkvæman blett hjá Þorgerði Katrínu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert