Fíllinn fer úr postulínsbúðinni

Brexit mun hafa víðtæk áhrif, meðal annars fyrir okkur Íslendinga.
Brexit mun hafa víðtæk áhrif, meðal annars fyrir okkur Íslendinga. AFP

Brexit er áskorun fyrir hin smærri ríki Evrópu; innan Evrópusambandsins sem utan. Endurskipulagning sambandsins eftir útgöngu Breta er líkleg til að færa Þjóðverjum og Frökkum ennþá meiri völd í hendur og tryggja ítök þeirra í álfunni, undir forystu Þjóðverja. Það gæti átt eftir að draga úr áhrifum hinna smærri ríkja. Enda þótt menn hafi gjarnan hent gaman að Bretum fyrir að vera „fíllinn í postulínsbúðinni“, höfðu mörg smærri ríkjanna hag af því að einhver annar en þau mölvuðu postulínið, þegar ESB-ríkin greindi á um stefnumótun og endurbætur á kerfinu. Þannig sló Bretland oftar en ekki skjaldborg um smærri ríkin gagnvart yfirráðum Þjóðverja og Frakka sem var heppilegt þegar rýnt var til gagns í þróun og breytingar á lýðræðislegu samstarfi.

Þetta er niðurstaða Baldurs Þórhallssonar, prófessors í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, og Anders Wivel, prófessors í stjórnmálafræði við Kaupmannahafnarháskóla, í grein um áhrif Brexit á smáríki, innan sem utan ESB, sem birtast mun í bókinni The Routledge Handbook of the Politics of Brexit.

Ganga Bretar í EFTA?

Í greininni kemur fram að tækifæri, ekki bara áskoranir, séu fólgin í Brexit fyrir EFTA-ríkin og ríkin sem eiga aðild að Evrópska efnahagssvæðinu. Þannig geti Ísland og Noregur orðið minna háð Evrópusambandinu takist þeim að nýta Brexit í sína þágu og koma á nánara samstarfi við Breta á sviði öryggismála, viðskipta og menningar. Þetta á ekki síst við gangi Bretar í EFTA, eins og sumir stjórnmála- og fræðimenn hafa þegar gert skóna. Því hefur raunar verið haldið fram að EFTA henti hagsmunum Breta jafnvel betur en ESB, lagalega, pólitískt og fjárhagslega. Helsta ljónið í veginum er líklega frjálst flæði vinnuafls á EFTA-svæðinu og fyrir vikið gætu Bretar valið að vinna frekar náið með aðildarríkjunum í stað þess að slást formlega í hópinn, svokallað UKEFTA. Í öllu falli er talið að staða Breta yrði sterkari með EFTA á bak við sig, bæði í Evrópu og á heimsvísu. Baldur og Wivel eru þeirrar skoðunar að þetta gæti stuðlað að nýjum tækifærum fyrir núverandi EFTA-ríki í Bretlandi og einnig þegar kemur að nýjum viðskiptasamningum utan Evrópu.

Hvatning frá Íslandi

Í þessu sambandi ber að hafa í huga að Bretar hafa ekki sjálfir gefið til kynna að þeir hyggist sækja um aðild eða óska eftir samstarfi við EFTA og fyrir liggur að bæði Norðmenn og Svisslendingar hafa efasemdir um slík áform. Bæði er þau ríki sögð hafa áhyggjur af því Bretar myndu taka yfir forystuhlutverkið í samtökunum, auk þess sem spennan á milli Breta og ESB gæti skaðað farsælt samstarf EFTA og ESB.

Mestur áhugi á aðild Breta að EFTA er á Íslandi, að því er fram kemur í greininni, en tveir síðustu utanríkisráðherrar, Guðlaugur Þór Þórðarson og Lilja Dögg Alfreðsdóttir, hafa beinlínis hvatt Breta til að sækja um aðild að samtökunum. „Utanríkisráðherrann hefur lagt áherslu á þann möguleika að Ísland og önnur EFTA-ríki fylgi fordæmi Breta og geri fríverslunarsamninga við ríki vítt og breitt um heiminn. Mögulega gæti þetta leitt til betri viðskiptasamninga við Breta en þau [EFTA-ríkin] búa að núna,“ segja Baldur og Wivel.

Í greininni kemur fram að Bretar hafi í sögulegu samhengi verið hliðhollir smærri ríkjum innan ESB; greitt götu þeirra inn í sambandið, ekki síst við lok kalda stríðsins, og staðið með þeim í ýmsum málum, einkum gagnvart stóru ríkjunum tveimur, Frökkum og Þjóðverjum. „Smærri Evrópuríkin sáu Breta sem helsta talsmann frjálsra viðskipta, sem tryggði þeim nauðsynlegan aðgang að mörkuðum, þannig að þeirra litlu hagkerfi gætu vaxið, auk þess sem Bretar voru mikilvægur hlekkur í öryggis- og varnarkerfi sambandsins,“ segja Baldur og Wivel.

Nánar er fjallað um málið í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert