Lægðirnar sitja fastar

Veðurstofa Íslands

Mjög hlýtt er í veðri miðað við árstíma en ástæðan er sú að hefðbundnar lægðir, sem myndast yfir norðvestanverðu Atlantshafi komast ekki leiðar sinnar vegna hæða sem gera sig gildandi á þeim slóðum. Lægðirnar sitja því hálf fastar á hafsvæðum langt suður af Íslandi og beina til okkar mildu og röku lofti af suðaustlægum uppruna. Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

„Í dag er útlit fyrir meinlaust veður. Spáð er suðaustan og austan 5-13 m/s og dálítilli rigningu, en hægari vindur og bjartviðri norðanlands. Hiti 6 til 12 stig.
Á morgun bætir í vindinn, þá er gert ráð fyrir að gangi í austan 8-15, en 15-20 með suðurströndinni. Útlit er fyrir rigningu á Suðausturlandi og Austfjörðum, en þurrt um landið norðan- og vestanvert. Áfram hlýtt miðað við árstíma og gæti hiti náð í 13 stig suðvestan til á landinu. 

Hefðbundnar lægðir sem myndast yfir norðvestanverðu Atlantshafi komast ekki til Evrópu eða Skandinavíu, því þessa dagana eru fyrirstöðuhæðir að gera sig gildandi á þeim slóðum. Lægðirnar sitja því hálf fastar á hafsvæðum langt suður af Íslandi og beina til okkar mildu og röku lofti af suðaustlægum uppruna,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands.

Veðurspá fyrir næstu daga

Suðaustan og austan 5-13 m/s og dálítil rigning, en hægari vindur og bjartviðri norðanlands.
Gengur í austan 8-15 á morgun, en 15-20 með suðurströndinni. Rigning á Suðausturlandi og Austfjörðum, en þurrt um landið norðan- og vestanvert. 
Hiti 6 til 13 stig, hlýjast á Vesturlandi.

Á mánudag:

Austanátt, víða 10-15 m/s, en 15-20 með suðurströndinni. Lengst af rigning á Suðausturlandi og Austfjörðum, en þurrt að mestu í öðrum landshlutum. Hiti 6 til 13 stig, hlýjast á Vesturlandi. 

Á þriðjudag:
Austan 13-20 m/s, en dregur heldur úr vindi þegar líður á daginn. Víða rigning með köflum, en talsverð rigning suðaustan- og austanlands. Hiti breytist lítið. 

Á miðvikudag:
Suðaustan og austan 8-15, en norðaustlægari á Vestfjörðum. Þurrt að kalla norðaustanlands, en víða skúrir eða rigning annars staðar. Hiti 4 til 10 stig. 

Á fimmtudag (sumardagurinn fyrsti):
Norðlæg átt 8-15 um landið norðvestanvert og rigning eða slydda. Hægari suðvestlæg eða breytileg átt annars staðar með skúrum suðvestan til, en bjart að mestu um landið austanvert. Hiti 2 til 10 stig, svalast á Vestfjörðum. 

Á föstudag:
Norðan 5-10 og lítilsháttar él um landið norðanvert, hiti um og yfir frostmarki. Vestlægari sunnantil með smáskúrum og hita 4 til 8 stig. 

Á laugardag:
Fremur hæg breytileg átt. Skýjað með köflum og þurrt að mestu á landinu. Hiti 1 til 8 stig, hlýjast sunnanlands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert