Mótorhjólakappar komu færandi hendi

Ferðalangarnir ásamt skólabörnunum. Efsta röð frá vinstri: Sigurjón Eiðsson, Tú …
Ferðalangarnir ásamt skólabörnunum. Efsta röð frá vinstri: Sigurjón Eiðsson, Tú víetnamíski viðgerðarmaður hópsins, Halldór Björnsson, Gunnar Jóhansson, Einvarður Hallvarðsson, Halfdán Örnólfsson, Eiríkur Viljar sem heldur á víetnamskri stúlku, Þorvaldur Færseth og Jón Hauksson. Ljósmynd/Aðsend

Leiðsögumaðurinn og mótorhjólakappinn Eiríkur Viljar Hallgrímsson Kúld fór fyrir hópi íslenskra mótorhjólamanna sem færðu rúmlega 90 skólabörnum í fjallaþorpi í Víetnam hlýjar úlpur sem munu nýtast vel yfir vetrartímann.

Eiríkur er ásamt 10 manna hópi í mótorhjólaferð um Víetnam sem hann skipulagði í samstarfi við ferðaskrifstofuna Farvel. „Við fórum í sambærilega ferð í fyrra og vorum með leiðsögumann frá Víetnam. Það er mikil fátækt í fjöllunum í Norður-Víetnam, þangað sem við vorum að fara, og leiðsögumaðurinn stakk upp á því að myndum heimsækja skóla á svæðinu og leggja smávegis í púkk og kaupa eitthvað handa þeim,“ segir Eiríkur í samtali við mbl.is. 

Hópurinn tók að sjálfsögðu vel í það og færðu þau skólabörnum litlar gjafir, nammi, liti og stílabækur. Ári seinna er Eiríkur kominn á sömu slóðir og í þetta skiptið vildi hann bæta um betur. Sami leiðsögumaður var með í för í þetta skiptið og benti hann Eiríki á skólabörn í þorpi í fjöllunum rétt fyrir utan bæinn Sapa, sem þyrftu á hlýjum fatnaði að halda, en það getur orðið ansi kalt í fjöllunum í norðurhluta landsins.

Eiríkur segir að hlýjar úlpur séu kannski ekki það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar hugsað er um Víetnam. „En þorpið er 1600 metrum yfir sjávarmáli og á veturna getur hitinn farið undir frostmark og það snjóar nokkrum sinnum á ári.

Halldór Björnsson, einn af mótorhjólaköppunum, færir nemanda við skóla í …
Halldór Björnsson, einn af mótorhjólaköppunum, færir nemanda við skóla í fjallaþorpinu hlýja úlpu að gjöf. Ljósmynd/Aðsend

Heragi og fljúgandi nammibréf

Hópurinn keypti úlpur fyrir hvern einasta nemanda, 93 talsins, og lét senda frá höfuðborginni Hanoi. Þeir laumuðu svo nammi, snakki, stílabókum og ritföngum með í pakkann. Því næst héldu þeir á mótorhjólunum upp í fjöllin þar sem nemendurnir áttu von á þeim. „Það var alveg þvílík athöfn þegar við mættum. Við afhentum pakkann og þetta er klárlega það sem stendur upp úr í ferðinni. Þarna nær maður að gefa beint, það er enginn milliliður,“ segir Eiríkur.

Það sem vakti einna helst athygli mótorhjólakappanna var hversu mikill agi virðist vera í skólanum. „Þetta var alveg magnað, það er greinilega einn nemandi með það ábyrgðarhlutverk að láta alla fara í röð. Hann var með trommu og trommukjuða og þegar hann lamdi í trommuna sína hlupu allir út úr skólastofunum og mynduðu sex raðir og það heyrðist ekki múkk. Svo lamdi hann aftur í trommuna og þá sneru allir sér að okkur. Þetta minnti mann frekar á herdeild en lítinn barnaskóla,“ segir Eiríkur.

Hann segir að börnin hafi óneitanlega verið feimin, enda ekki á hverjum sem þau sjá stóra hvíta karmenn á mótorhjólum og hvað þá hlaðna gjöfum. En um leið og við vorum farnir af svæðinu heyrðum við mikinn hlátur og nammibréfin voru farin að fjúka,“ segir Eiríkur.

Mótorhjólakapparnir fóru í 10 daga ferðalag um Víetnam og eru …
Mótorhjólakapparnir fóru í 10 daga ferðalag um Víetnam og eru þeir sammála um að heimsóknin í fjallaþorpið til skólabarnanna standi upp úr. Ljósmynd/Aðsend

Hér má sjá myndband af heimsókninni: 

 

Ferðinni er nú lokið og er förinni heitið til Íslands þar sem Eiríkur mun starfa sem leiðsögumaður í sumar. Ferðalög, saga og mótor­hjól eru hans þrjú helstu áhuga­mál og hann veit fátt skemmtilegra en að sameina þetta þrennt og nýta reynslu sína í að leiða ís­lenska ferðalanga um Víet­nam á mótor­hjóli. Í sumar mun hann hins vegar láta ferðalög innanlands nægja. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert