Píratar segja stuðning óásættanlegan

Stríðið í Sýrlandi hefur leitt til gríðarlegrar eyðileggingar og kostað …
Stríðið í Sýrlandi hefur leitt til gríðarlegrar eyðileggingar og kostað mikinn fjölda mannslífa. Myndin er frá borginni Raqa. AFP

Þingflokkur Pírata segir óásættanlegt að ríkisstjórn Íslands hafi stutt yfirlýsingu NATO um hernaðaraðgerðir Banda­ríkja­manna, Frakka og Breta í Sýr­landi sem ógni öryggi almennra borgara á svæðinu og hamli rannsókn alþjóðlega viðurkenndra eftirlitsaðila á efnavopnaárásinni sem þar var gerð. Þetta kemur fram í tilkynningu frá þingflokknum nú í kvöld.

Utanríkismálanefnd Alþingis fundar nú með utanríkisráðherra vegna stuðnings ríkisstjórnarinnar við málið.

Í yfirlýsingu Pírata segir að þingflokkurinn fordæmi „allan ólögmætan árásarhernað í Sýrlandi. Bandaríkin, Frakkland og Bretland hafa nú gert sameiginlega árás á hernaðarleg skotmörk í Sýrlandi.“ Þá er vísað til þess að aðgerðir ríkisstjórna Sýrlands, Tyrklands og Rússlands í stríðinu hafi einnig verið ólöglegar.

Þingflokkurinn fordæmir einnig Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna og segir það hafa ítrekað brugðist skyldu sinni gagnvart Sýrlandi. „Ráðið er ófært um að beita raunverulegum og lögmætum úrræðum í deilunni vegna neitunarvaldsins, sem er ólíðandi ástand með öllu.  Það er skammarlegt að heimsfriður skuli enn velta á því, hvort leiðtogar einstakra stórvelda séu tilbúnir að leggja eigin metnað og kappsemi gagnvart öðrum stórveldum til hliðar,“ segir í tilkynningunni.

Þá segir að ekki sé lengur hægt að hafa tölu á fjölda glæpa gegn mannkyninu í stríðsátökunum og er að auki vísað í átök Tyrkja og Kúrda. „Þjóðernishreinsanir Tyrkja gagnvart Kúrdum eru líka í fullum gangi í Sýrlandi, með fullri vitund og þöglu samþykki NATO ríkjanna. Vesturlönd, Ísland þar með talið, hafa hlaupist undan ábyrgð sinni gagnvart Sýrlendingum, Kúrdum og öðrum þolendum stríðsins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert