Ríkissaksóknari vill fá úrlausn Hæstaréttar

Jón H. B. Snorrason, saksóknari málsins og lögmaðurinn Vilhjálmur H. …
Jón H. B. Snorrason, saksóknari málsins og lögmaðurinn Vilhjálmur H. Vilhjálmsson. mbl.is/Árni Sæberg

Ríkissaksóknari mælir með því að fá úrlausn Hæstaréttar um það hvort skipan Arnfríðar Einarsdóttur sem Landsréttardómara hafi verið samkvæmt lögum, en í máli sem nú er rekið fyrir dómstólum hefur lögmaður krafist þess að Arnfríður víki sæti vegna vanhæfis. Landsréttur hefur áður úrskurðað að Arnfríði beri ekki að víkja í málinu.

Greint var fyrst frá málinu í kvöldfréttum Rúv.

Í málinu er tekist á um brot karlsmanns sem var dæmdur í sautján mánaða fangelsi fyrir margvísleg umferðarlagabrot og brot á reynslulausn. Ríkissaksóknari segir í umsögn um hvort veita eigi áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar að það sé engin ástæða til að mæla með áfrýjun vegna niðurstöðu Landsréttar um refsingu. Aftur á móti fallist ríkissaksóknari á að mjög mikilvægt sé að fá úrlausn Hæstaréttar um álitaefnið sem tengist meintu vanhæfi Arnfríðar.

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður mannsins í málinu gerði fyrst kröfu um að Arnfríður myndi víkja í byrjun febrúar. Sagði hann að skipan Arnfríðar gæfi sér efasemdir um sjálfstæði dómstólsins, en Hæstiréttur hafði áður komist að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið ætti að greiða tveimur umsækjendum um embætti dómara við Landsrétt miskabætur. Telur Vilhjálmur þá dóma sýna að ekki hafi verið rétt staðið að skipun dómara.

Landsréttur úrskurðaði hins vegar að Arnfríður væri hæf, en Arnfríður sjálf ásamt tveimur öðrum Landsréttardómurum kvað upp úrskurðinn. Niðurstaða úrskurðarins var kærð til Hæstaréttar sem vísaði honum frá.

Nú hefur Vilhjálmur hins vegar óskað eftir að áfrýja málinu í heild sinni til Hæstaréttar og mun afstaða ríkissaksóknara líklega liðka fyrir því að áfrýjunarleyfi verði veitt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert