28% aukning í losun gróðurhúsalofttegunda

Taflan sýnir heildarlosun gróðurhúsalofttegunda án landnotkunar frá 1990 til 2016.
Taflan sýnir heildarlosun gróðurhúsalofttegunda án landnotkunar frá 1990 til 2016. Tafla/Umhverfisráðuneytið

Árið 2016 var losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi 4.669 kílótonn af CO2-ígildum, sem er aukning um rúmlega 28% frá árinu 1990 en samdráttur um tæplega 2% frá árinu 2015.

Þetta kemur fram í skýrslu Umhverfisstofnunar um losun gróðurhúsalofttegunda til loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna, UNFCCC. Í henni er að finna ítarlegar upplýsingar um losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi frá 1990 til 2016, ásamt lýsingu á aðferðafræðinni sem er notuð til að meta losunina.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Umhverfisstofnun.

Losun Íslands árið 2016 með landnotkun, breyttri landnotkun og skógrækt jókst um 8,5%, frá 1990 til 2016.

Meginástæður samdráttar í losun milli 2015 og 2016, án landnotkunar, eru minni losun frá fiskiskipum, álframleiðslu og kælimiðlum. Þá hefur niðurdæling CO2 frá jarðvarmavirkjunum einnig leitt til minni losunar út í andrúmsloftið, að því er segir í tilkynningunni.

Þrátt fyrir að heildarlosunin hafi dregist saman milli ára, hefur losun aukist verulega frá uppsprettum eins og vélum og tækjum (12%) og vegasamgöngum (9%).

Stærstu uppsprettur gróðurhúsalofttegunda á Íslandi árið 2016, án landnotkunar, voru málmiðnaður (38%), vegasamgöngur (19,5%), fiskiskip (11%), iðragerjun jórturdýra (6,6%) og urðun úrgangs(4,6%).

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert