573 þúsund ferðamenn heimsóttu Norðurland

29% af heildarfjölda erlendra ferðamanna sem komu til Íslands árið …
29% af heildarfjölda erlendra ferðamanna sem komu til Íslands árið 2017 heimsóttu Norðurlandið. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Áætlað er að um 573 þúsund erlendir ferðamenn hafi komið á Norðurland á síðasta ári, eða 29% af heildarfjölda erlendra ferðamanna sem komu til Íslands árið 2017. Þetta er meðal þess sem kemur fram í niðurstöðum rannsóknar sem fyrirtækið Rannsóknir og ráðgjöf ferðaþjónustunnar ehf. vann fyrir Markaðsstofu Norðurlands.

Í samantektinni er farið yfir fjölda erlendra ferðamanna á Norðurlandi á árunum 2010-2017, ferðamáta þeirra og fjölda gistinátta. Þessum upplýsingum er sömuleiðis skipt upp eftir svæðum á Norðurlandi.

Næturgestir voru 456 þúsund, sem gistu að meðaltali í rúmlega þrjár nætur. Samtals voru seldar gistinætur á síðasta ári 1.413 þúsund, sem er um 11% af heildarfjölda gistinótta erlendra ferðamanna. Þó nokkur munur er á fjölda þeirra sem kemur að sumri til annars vegar og vetri til hins vegar.

Mikilvægt að markaðssetja vetrarferðaþjónustu

„Áhugavert er að sjá að rétt tæplega 50% erlendra sumargesta á Íslandi komu á Norðurland en aðeins um 17% vetrargesta. Þetta er í takt við þær niðurstöður sem við höfum fengið á undanförnum árum og sýnir enn og aftur mikilvægi þess að markaðssetja vetrarferðaþjónustu um allt land og að bæta samgöngur svo erlendir ferðamenn skili sér til Norðurlands allt árið,“ er haft eftir Arnheiði Jóhannsdóttur, framkvæmdastjóra Markaðsstofu Norðurlands, í tilkynningu.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert