Einhugur innan ríkisstjórnarinnar

Mótmælendur í Bagdad, höfuðborg Íraks, lýstu í gær yfir andstöðu …
Mótmælendur í Bagdad, höfuðborg Íraks, lýstu í gær yfir andstöðu við loftárásir Vesturveldanna og brenndu fána Bandaríkjanna. AFP

Yfirlýsing Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins NATO, á laugardag um loftárásir Bandaríkjamanna, Breta og Frakka í Sýrlandi lýsti fullum stuðningi Íslands og allra hinna bandalagsríkjanna við aðgerðirnar, sem beindust gegn efnaverksmiðjum og rannsóknarstofum á vegum stjórnar Bashar al-Assads Sýrlandsforseta.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir að einhugur sé innan ríkisstjórnarinnar um stuðning Íslands við yfirlýsingu NATO um aðgerðir ríkjanna þriggja, en boðað var til fundar í utanríkismálanefnd vegna flugskeytaárásanna í gærkvöldi, þar sem utanríkisráðherra fór yfir málið með nefndarmönnum og embættismönnum úr utanríkisráðuneytinu.

„Öryggisráðið hefur brugðist hvað þetta varðar, fyrst og fremst út af því að Rússar hafa beitt neitunarvaldi sínu,“ segir Guðlaugur Þór við Morgunblaðið. Í því ljósi séu aðgerðirnar skiljanlegar, að mati íslenskra stjórnvalda, sem hafi þó alltaf talað fyrir pólitískri og friðsamlegri lausn í Sýrlandi og lagt áherslu á að koma því sjónarmiði á framfæri innan Atlantshafsbandalagsins.

„Stóra málið er þetta, sem ég vona að allir séu sammála um, að við fordæmum notkun efnavopna. Þau eru búin að vera bönnuð samkvæmt alþjóðalögum mjög lengi af ástæðu. Þetta eru einstaklega ómannúðleg vopn og menn hafa áhyggjur af því að verið sé að „normalísera“ notkun þeirra, sem yrði gríðarlega alvarlegt,“ segir Guðlaugur Þór í fréttaskýringu um þetta efni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert