Ferðamönnum bjargað úr sjálfheldu

Botnsfjall er austan við Stapafell á Arnarstapa.
Botnsfjall er austan við Stapafell á Arnarstapa. Kort/Map.is

Tveimur ferðamönnum var bjargað úr sjálfheldu á Botnsfjalli rétt austan við Arnarstapa á Snæfellsnesi í nótt með aðstoð björgunarsveitarmanna, lögreglunnar og þyrlu Landhelgisgæslunnar.

Tilkynning um tvo ferðamenn í sjálfheldu barst rétt fyrir miðnætti. Þegar lögreglu- og björgunarsveitarmenn voru komnir á svæðið um klukkan 1 í nótt var skollið á svarta myrkur og mátu þeir aðstæður þannig að best væri að óska eftir aðstoð þyrlu Landhelgisgæslunnar.

Samkvæmt upplýsingum frá stjórnstöð Gæslunnar var þyrlan komin á staðinn um klukkan 2.30 í nótt. Um tuttugu mínútum síðar var búið að koma mönnunum niður af fjallinu.

Mennirnir, sem eru erlendir ferðamenn, voru í sjálfheldu í klettabelti í Botnsfjalli og var aðkoman erfið, meira að segja fyrir þyrluna. En það tókst að hífa mennina upp í þyrluna og koma þeim niður þar sem lögreglan tók á móti þeim sem og vinur þeirra sem beið þeirra. 

Samkvæmt upplýsingum frá Gæslunni voru mennirnir vel búnir en þeir voru þó aðeins farnir að kólna er björgunin barst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert