Heimsend vitleysa

Svana Lovísa.
Svana Lovísa. Kristinn Magnússon

Íslendingar hafa ekki síður en aðrar þjóðir lent í ýmsu skrautlegu í sínum viðskiptum, stundum bara vegna eigin misgánings, stundum vegna ósvífinna svikahrappa sem senda stóra bleika plastglimmerrós til Jóns í Fossvogi sem ætlaði bara að panta sér úlpu. Sunnudagsblað Morgunblaðsins fór á stúfana og spjallaði við fólk sem hefur fengið eitthvað allt annað en það ætlaði sér í gegnum netið.

Agnarlítill legóhaus í stað geymslukassa

„Ég var búin að ætla mér svona hirslu, stóran legóhaus, lengi. Síðan hafði ég veður af því að hann væri kannski að fara að hætta í framleiðslu og ég hafði rétt misst af þessum hausum hér heima, voru uppseldir í Epal. Ég fór á stúfana og mér til mikillar gleði fann ég einn á Ebay,“ segir Svana Lovísa Kristjánsdóttir hönnuður sem er með hið vinsæla hönnunarblogg Svart á hvítu á Trendnet.

Hausinn sem Svana Lovísa vísar til og taldi sig vera að panta hefur notið mikilla vinsælda enda góðar hirslur þar sem hægt er að opna hausinn og geyma til dæmis kubba þar ofan í. 

„Það var ekkert skrítið við þessa auglýsingu, verðið var ekkert asnalega hátt eða lágt, bara svipað og hausinn hafði kostað í Epal.

Þegar ég fer á pósthúsið renna á mig tvær grímur þegar ég fæ afhentan agnarlítinn pakka og í honum leynist legóhaus á stærð við fingurnögl. Ég grét úr hlátri og tel þetta enn það fyndnasta sem hefur gerst. Enda er þessi haus alltaf á besta stað í stofunni uppi í hillu þótt hann reyndar týnist reglulega, nú síðast í gær þegar ég var að reyna að finna hann fyrir ljósmyndara Morgunblaðsins!“

Í dag á Svana einnig haus í fullri stærð en hún náði síðar að kaupa sér hirsluna eftir öðrum leiðum. „Sonur minn á stóra hausinn og ég þann litla.“

Má bjóða þér loðbelti?

Ofursakleysisleg kaup Arnars Þórs Ingólfssonar blaðamanns á látlausu leðurbelti vöktu nokkra lukku í vinahópi hans.

„Ég nota netið mikið til að panta mér vörur og tel mig því vanan mann. Þarna á Asos sá ég ósköp venjulegt brúnt karlmannsbelti sem mig vantaði og á myndinni var alls ekki að sjá að þetta belti væri neitt frábrugðið venjulegum beltum,“ segir Arnar.

Þegar á pósthúsið var komið dró hann upp úr pakkanum allt öðruvísi belti en hann bjóst við.

„Beltið var alsett löngum hárum, eins konar gervifeldi. Þetta hefur lengi þótt fyndið og ég geymdi beltið nokkuð lengi. Fór bara nýlega með það í Rauða krossinn til einhvers stálheppins nýs eiganda.“


Elskan, stólarnir eru komnir

„Mig vatnaði svo stóla á pallinn hjá mér og fékk strákana mína og eiginmann til að vafra með mér á netinu og skoða stóla. Við rákumst loks á þessa líku fínu stóla, pöntuðum þá og svo leið og beið þar til þeir komu loksins,“ segir Birna Baldursdóttir.

Loks kom tilkynning frá pósthúsinu og Birna var heldur hissa þegar afgreiðslumaðurinn rétti henni lítinn pakka, þetta hlyti að vera eitthvað annað en stólarnir. Í pakkanum voru þó vissulega stólar, vandamálið var að þeir voru í stærð fyrir barbídúkkur sem vilja hafa það huggulegt.

„Ég hló svo mikið þennan dag að ég fékk strengi og þegar maðurinn minn kom heim sagði ég: „Elskan, stólarnir eru komnir,“ og hann skimaði út um allt. Þótt ég hefði komið þeim fyrir fyrir framan nefið á honum fann hann þá hvergi, enda agnarlitlir.“

Alda í kjólnum sérstaka.
Alda í kjólnum sérstaka.


Á örlítið röngum stað

Þegar Alda Úlfarsdóttir pantaði sér glæsilegan kjól í gegnum netið bjóst hún í fyrsta lagi við að hann yrði eins útlits og það sem hún bjóst alls ekki við var að mittisbeltið væri saumað á kolröngum stað, þvert yfir brjóstin. Þannig var það nú samt.
„Það var engin leið að spretta beltinu upp, því var ekki tyllt á eða laust saumað heldur fastneglt við blúnduna,“ segir Alda en þess má geta að þegar hún hafði samband við seljandann skrifaði hann henni: „Kæri vinur, geturðu vinsamlegast fært beltið í mittið. Ef beltisstærðin passar ekki mælum við með að þú takir það af kjólnum.“ Sem var vissulega ekki hægt að gera.

Fleiri sögur af netviðskiptum má finna í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins sem kom út 14. apríl. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert