Kærunefnd felldi ákvörðun úr gildi

Útlendingastofnun.
Útlendingastofnun. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Kærunefnd útlendingamála hefur fellt úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar í máli hælisleitanda sem átti að senda aftur til Danmerkur.

Kærunefndin leggur fyrir stofnunina að taka mál hans til meðferðar á nýjan leik. Úrskurðurinn er dagsettur 12. desember síðastliðinn en hefur núna verið birtur. 

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að umsókn hælisleitandans um alþjóðlega vernd yrði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi og hann skyldi endursendur til Danmerkur.

Lagt var til grundvallar að Danmörk virði ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna, þar með talið bann við endursendingu til ríkis þar sem líf og frelsi kæranda kynni að vera í hættu.

Því fæli flutningur kæranda til Danmerkur ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga. Þá var talið að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að ástæða væri til að beita ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Fram kemur í niðurstöðu kærunefndarinnar að miðað við rökstuðning á ákvörðun í máli hælisleitandans hafi Útlendingastofnun haft ásetning til þess að ekki færi fram viðhlítandi mat á þeim sjónarmiðum sem stofnuninni var skylt að leggja til grundvallar í ákvörðun kæranda varðandi sérstakar ástæður í skilningi 2. mgr. 36. greinar laga um útlendinga.

„Óháð því hvort skortur á framangreindu mati hefur haft áhrif á niðurstöðu málsins er ljóst að um er að ræða kerfisbundinn annmarka í meðferð mála hjá Útlendingastofnun sem kærunefnd útlendingamála, í ljósi yfirstjórnunar- og eftirlitsheimilda vegna meðferðar þessara mála, er skylt að bregðast við. Verður því ekki hjá því komist að fella ákvörðun í máli kæranda úr gildi,“ segir í niðurstöðunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert