Landsnet fylgi leikreglum

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir. mbl.is/Eggert

Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins, og Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar, spurðu Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, á Alþingi út í Lyklafells- og Hamraneslínur í ljósi þess að framkvæmdaleyfi vegna lagningar Lyklafellslínunnar var fellt úr gildi.

Gunnar Bragi nefndi að ákvörðunin um niðurfellingu framkvæmdaleyfisins hafi haft töluverð áhrif á Hafnarfjarðarbæ vegna Skarðshlíðarhverfis og uppbyggingar þar.

Gunnar Bragi spurði hvort ráðherra sé hlynntur því að breyta skuli lögum þannig að ekki sé hægt að kæra þegar framkvæmdaferlið sé við það að hefjast.

Einnig spurði hann hvort Hafnarfjarðarbær hefði átt að fara varlega í sínar framkvæmdaáætlanir í ljósi þess að enn var hægt að kæra ferlið.

Einnig spurði hann hvort ráðherra hafi fundað með Landsneti og viðkomandi bæjarstjórnum vegna verkefnisins.

Gunnar Bragi Sveinsson.
Gunnar Bragi Sveinsson. mbl.is/Hari

Þórdís Kolbrún sagðist hvorki hafa fundað með Landsneti né sveitarfélögum eftir að niðurstaða úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál var ljós.

Hún sagði mál sem þessi bæði flókin og viðkvæm. Erfitt geti verið að finna jafnvægi varðandi framkvæmdir annars vegar um umhverfisvernd hins vegar.

Hún sagði vænlegast ef hægt væri að fá fleiri að borðinu fyrr í ferlinu, þannig að óánægja eða kærur komi ekki svona seint fram. Bætti hún því við að málið hefði tekið „ótrúlega langan tíma“.

Gunnar Bragi steig aftur í pontu og spurði hvort til greina komi að lög verði sett sem heimili línuna.

Þórdís Kolbrún sagði almennt séð sé ekki heppilegt að gera slíkt. Það séu ekki góð vinnubrögð og vinna þurfi betur að verkefninu í heild sinni.

Guðmundur Andri Thorsson.
Guðmundur Andri Thorsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðmundur Andri Thorsson spurði ráðherra út í málefni Landsnets og Hamraneslínu. Nefndi hann að háspennulínur liggi í gegnum Skarðshlíðarhverfið þar sem lóðum hafi verið úthlutað í trausti þess að Landsnet standi við síendurtekin loforð og samninga um að línurnar verði færðar. 

Guðmundur Andri spurði hvort ráðherra hygðist beita sér fyrir því að háspennulínan verði lögð í jörð.

Þórdís Kolbrún sagði að þingsályktunartillaga hafi verið lögð fram þar sem því er gert hátt undir höfði að rannsaka eigi kosti hvað varðar jarðstrengi.

Hún sagði mikilvægt að huga að því hvað sé tæknilega raunhæft og hvað sé raunhæft út frá kostnaði.

Þórdís Kolbrún sagði að Landsnet þurfi að fylgja leikreglum. „Hvort ég muni beita mér sérstaklega í einstaka framkvæmd eða einstaka máli, þá er því til að svara að ég geri þá kröfu til annarra að þeir fylgi leikreglum og ég geri það þá sömuleiðis sjálf gagnvart mér og ráðuneytinu.“

Hún bætti því við að hún hefði ekki fengið það á borð til sín að beita sér sérstaklega í málinu sem Guðmundur Andri nefndi.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert