Lögmannsstofa vann mál gegn lögreglunni

Lögreglustöðin Hlemmi.
Lögreglustöðin Hlemmi. mbl.is/Golli

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur úrskurðað að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu skuli greiða lögmannsstofunni Lögskilum ehf. tæpar 870 þúsund krónur með dráttarvöxtum.

Starfsmenn lögmannsstofunnar hafa á undanförnum árum sinnt verjendastörfum við rannsóknir stefnda, embættis lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.

Málið snýst um reikninga sem lögmannsstofan sendi embættinu vegna starfa sinna en voru endursendir.

Við reikningsgerðina var gerður fyrirvari við tímagjaldið og áskilinn réttur til að krefja stefnda síðar um mismun á gerðum reikningum og tímagjaldi samkvæmt gjaldskrá stefnanda. Þá var við reikningsgerðina gerð krafa um greiðslu vegna aksturs, að því er kemur fram í dóminum.

Fram kemur að embætti lögreglustjórans hafi endursent reikningana með athugasemdum um að ekki væri greitt fyrir akstur innan höfuðborgarsvæðisins og vísað til viðmiðunarreglna. Ekki komu fram athugasemdir um réttmæti reikninganna að öðru leyti.

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Ófeigur

Við endursendingu reikninganna óskaði embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu eftir að gefnir yrðu út nýir reikningar, sem tækju mið af ákvörðun stefnda. Jafnframt var í tveimur tilvikum óskað eftir að reikningar yrðu gefnir út á aðra kennitölu vegna breytinga á fyrirkomulagi greiðslumála hjá stefnda.

Lögmannsstofan hafnaði tilmælum stefnda um útgáfu nýrra reikninga.

„Stefnandi telur að reikningar þeir sem hann hefur gefið út á hendur stefnda og sem um er deilt í máli þessu verði að skoðast sem ógreiddar vanskilakröfur á hendur stefnda,“ segir í dóminum.

Embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hafnaði því að kröfurnar væru ógreiddar vanskilakröfur. Um hafi verið að ræða reikninga sem gefnir hafi verið út með röngum hætti en sem stefnandi hafi neitað að breyta þannig að samrýmdist gildandi reglum. Stefndi taldi að stefnanda hefði verið í lófa lagið að lagfæra reikningana í samræmi við áskoranir stefnda þar um, svo stefndi gæti greitt reikningana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert