Var að fikta í útvarpinu og missti stjórn á bílnum

mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Bílvelta varð á Garðvegi á Suðurnesjum síðdegis í gær. Ökumaður slapp án meiðsla að sögn lögreglu, sem greinir frá því í tilkynningu að ökumaðurinn hafi sagt að hann hefði verið að fikta í útvarpinu og misst við það stjórn á bifreiðinni með þeim afleiðingum að hún hafnaði utan vegar og valt.

Lögreglan á Suðurnesjum segir enn fremur frá því, að annar ökumaður hafi ekið bifreið sinni á vegrið milli akreina á Reykjanesbraut. Hann var hins vegar horfinn af vettvangi þegar lögreglumenn komu á staðinn. Þeir höfðu uppi á honum og kvaðst hann finna til verkja eftir óhappið. Vegriðið skemmdist talsvert og bifreiðin var fjarlægð með dráttarbifreið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert