Flóttinn af Sogni: Hvað hefur komið fram?

Sindri Þór Stefánsson strauk frá Sogni í nótt og fór …
Sindri Þór Stefánsson strauk frá Sogni í nótt og fór með flugi til Stokkhólms. Alþjóðleg handtökuskipun hefur verið gefin út á hendur honum. Grunnkort/Map.is

Sindri Þór Stefánsson strauk úr fangelsinu að Sogni síðustu nótt og fór með flugi til Stokkhólms áður lögreglan fékk tilkynningu um flóttann. Alþjóðleg handtökuskipun hefur verið gefin út á hendur Sindra og vinnur lögreglan hörðum höndum við að hafa uppi á honum. Hér má líta á það helsta sem hefur komið fram í málinu á þeim tæpa sólarhring sem er liðinn frá því að Sindri strauk. 

Um klukkan eitt í nótt fór Sindri út um glugga á herbergi sínu í fangelsinu að Sogni. Fangaverðir urðu ekki varir við að Sindri var horfinn fyrr en um klukkan 7 í morgun. Lögreglunni barst tilkynning um strok Sindra um klukkutíma síðar. Þá var Sindri kominn upp í flugvél Icelandair sem lenti í Stokkhólmi rétt fyrir klukkan ellefu að íslenskum tíma.

Frétt mbl.is: Strokufanginn farinn til Svíþjóðar

Sindri ferðaðist á nafni ann­ars manns en mynd­ir úr ör­ygg­is­mynda­véla­kerfi Flug­stöðvar Leifs Ei­ríks­son­ar staðfesta að Sindri var um borð í flug­vél­inni. Lög­regl­an vinn­ur nú að því í sam­starfi við sænsk lög­reglu­yf­ir­völd að hafa uppi á Sindra. Þá hefur alþjóðleg hand­töku­skip­un verið gef­in út á hend­ur hon­um.

Í haldi vegna stórfellds þjófnaðar á tölvubúnaði

Sindri hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan 2. fe­brú­ar vegna gruns um aðild að stórfelldum þjófnaði á tölvubúnaði úr gagna­veri. Alls var um 600 tölvum stolið og talið er að verðmæti þeirra nemi um 200 milljónum króna. Lög­regl­an hef­ur ekki fundið þýfið í þessu um­fangs­mesta þjófnaðar­máli Íslands.

Frétt mbl.is: Lögreglan engu nær að finna tölvurnar

Sindri sat fyrstu tvo mánuðina í fangelsinu á Hólmsheiði en var fluttur á Sogn fyrir tíu dögum. Hann sætti síbrotagæslu vegna fyrra brota, sem tengjast meðal annars kannabisræktun.

Fékk líklega aðstoð utan veggja fangelsisins

Gunnar Ólafur Schram, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurnesjum, sagði í samtali við mbl.is í kvöld að fullvíst sé að Sindri hafi haft vitorðsmann, eða -menn, sem aðstoðuðu hann að komast frá Sogni og að flugstöðinni. 

Sogn er opið fangelsi og því hafði Sindri aðgang að tölvu og síma á meðan hann sat í gæsluvarðhaldi. 

Páll Win­kel fang­els­is­mála­stjóri sagði í viðtali í Kastljósi í kvöld að ekk­ert hafi bent til þess að Sindri væri lík­leg­ur til að strjúka úr fang­els­inu að Sogni. „Það var ekk­ert sem benti til þess að það væri strok­hætta af þess­um manni,“ sagði Páll. Hann benti jafn­framt á að sam­setn­ing fanga­hóps­ins á Íslandi geri það að verk­um að fang­els­is­mála­yf­ir­völd þurfi að for­gangsraða inn í fang­elsið. „Það er harðasti kjarni manna sem afplán­ar fang­els­is­refs­ing­ar í fang­els­um.“

Frétt mbl.is: Ekkert benti til strokhættu

Segir að fangaverðir hafi sinnt starfi sínu

Upptaka úr eftirlitsmyndavél á Sogni sýnir þegar Sindri fer út um glugga á herbergi sínu. Páll segir að fangaverðir hafi sinnt starfi sínu vel síðustu nótt, en hægt sé að greina með góðum vilja þegar Sindri yfirgaf fangelsissvæðið.

Rannsókn lögreglu teygir sig nú út fyrir landsteinana og telur lögreglan líkur á að Sindri sé farinn frá Svíþjóð. 

Sindri Þór Stefánsson.
Sindri Þór Stefánsson.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert