Hafa ítrekað óskað eftir úrbótum hjá Dalsmynni

Umhverfi hundanna á Dalsmynni er einsleitt að mati Matvælastofnunnar, en …
Umhverfi hundanna á Dalsmynni er einsleitt að mati Matvælastofnunnar, en þeir dvelja í stíum inni og er hver stía með aðgang að útigerði. Mynd úr safni. AFP

Starfsemi Dalsmynnis er ekki stöðvuð vegna illrar meðferðar á dýrunum, í þeim skilningi að verið sé að leggja hendur á hundana eða vanfóðra, segir Konráð Konráðsson, héraðsdýralæknir Suðvesturumdæmis. Ítrekuðum kröfum um þjálf­un, umönn­un og um­hirðu hund­anna þ.m.t. hrein­læti og skrán­ingum hafi hins vegar ekki verið sinnt.

Matvælastofnun greindi í morgun frá því að tekin hefði verið ákvörðun um að stöðva starf­semi Hunda­rækt­ar­inn­ar í Dals­mynni á grund­velli laga um vel­ferð dýra. Ástæða stöðvun­ar er að kröf­ur stofn­un­ar­inn­ar um var­an­leg­ar úr­bæt­ur hafa ekki verið virt­ar, einkum varðandi þjálf­un, umönn­un og um­hirðu hund­anna þ.m.t. hrein­læti og skrán­ing­ar. Viðhaldi hús­næðis sé sömu­leiðis ábóta­vant. Aðgerðir og áætlan­ir vegna ormameðhöndl­un­ar hunda ásamt sýna­tök­um voru sömu­leiðis ekki full­nægj­andi.

Tæplega 20 hundar eru nú á Dalsmynni og hefur dregið verulega úr starfseminni frá 2013, er þeir voru um 120 talsins. Hefur Hunda­rækt­un­inni að Dalsmynni verið veitt­ur mánaðarfrest­ur til að ráðstafa hund­um og kom­ast þannig hjá vörslu­svipt­ingu hunda af hálfu Mat­væla­stofn­un­ar. 

Umhverfið einsleitt og stundum óhreint

Konráð segir að flokka megi frávikin sem stöðvun starfseminnar byggi á í þrennt. „Í fyrsta lagi  snúast þau um hundana sjálfa og velferð þeirra,“ segir hann og kveðst þar vísa til þjálfunar á borð við umhverfisþjálfunar þar sem hundar eru kynntir fyrir umhverfi sínu og samveru við fólk, umhirðu og umönnun. „Það er mikil vinna að sinna þessu og krefst mikils,“ bætir hann við.

Þegar hundarækt sé atvinnustarfsemi, líkt og í tilfelli Dalsmynni, verði að sýna fram á það með skráningum að slíkt sé gert og til þessa hafi þær skráningar hafa ekki verið trúverðugar.

„Í öðru lagi snúast frávikin um umhverfið sem hundarnir lifa í. Það er mjög einsleitt og getur verið óhreint, viðhaldi ábótavant og fleira í þeim dúr.“ Segir Konráð hundana á Dalsmynni dvelja í stíum inni og hver stía hafi síðan aðgang að útigerði.

Spurður hvort það þýði að hundarnir fá enga hreyfingu segir hann forsvarsmenn Dalsmynnis halda því fram að þeir fái að hlaupa um tún á svæðinu. „Það sem við sjáum hins vegar þegar  við komum í eftirlit er að hundarnir eru inni í stíu og svo hurð á útigerðinu sem er tengt við stíuna. Eftir því sem við sjáum, þá er þetta þeirra umhverfi.“ Matvælastofnun telji ekki hafa verið sýnt fram á að hundarnir fái viðeigandi þjálfun og hreyfingu.

Verulega dregið úr starfsemi frá 2013

Konráð segir verulega hafa dregið úr starfsemi Dalsmynni undanfarin ár. „Árið  2013 voru þetta að mig minnir um 120 hundar, en þeir eru núna komnir undir 20,“ segir hann og kveður um 18 hunda og hvolpa hafa verið á staðnum í síðustu eftirlitsferð MAST. Ekki hafi heldur komið aftur upp sama staða og 2014 þegar eftirlitsmönnum MAST var ekki hleypt inn. „Þeir hafa alltaf hleypt okkur inn,“ segir hann.

Í þriðja og síðasta lagi snúast frávikin sem stöðvunin snýst um um ófullnægjandi áætlanir og aðgerðir um lyfjameðhöndlun, sýnatöku, þrif og sótthreinsun, m.a. vegna þráðormsins Strongyloi­des stercoral­is. Spurður hvort hann viti til þess að ormurinn, sem greindist í hundum frá Dalsmynni 2012, hafi greinst þar aftur segir Konráð að ormurinn hafi ekki verið í þeim sýnum sem forsvarsmenn Dalsmynnis hafi sjálfir tekið.

„Við viljum sjá faglega nálgun á áætlun um sýnatökur og hvernig eigi að meðhöndla hundana, hvernig eigi að halda smitinu í lágmarki og helst útrýma því með þrifum og sótthreinsun. Það er þessi faglega nálgun sem við erum alltaf að biðja um - að það sé sýnt fram á trúverðuga eftirlitsáætlun með þessum ormi, hvernig eigi að taka á honum til þess að halda honum niðri.“

Slíkt hafi hins vegar ekki verið gert.

„Þetta er það sem við höfum verið að óska eftir úrbætum á í gegnum tíðina og samkvæmt lögunum, ef úrbætur eru ekki gerðar með varanlegum hætti þannig að um ítrekuð frávik er að ræða, þá heimila lögin þessar aðgerðir,“ segir Konráð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert