Ógnin um umskurðarbann nú raunveruleg

Danski rabbíninn Jair Melchior (annar frá hægri).
Danski rabbíninn Jair Melchior (annar frá hægri). mbl.is/Valli

Á Íslandi búa ekki nema á milli 35-40 gyðingar, en hingað eru komnir þrír fulltrúar gyðinga frá Norðurlöndunum. Það sýnir hversu mikilvægt málið er gyðingum, sagði danski rabbíninn Jair Melchior, á ráðstefnu um umskurð drengja í Norræna húsinu í dag.

Samráðsvettvangur trúfélaga og lífsskoðunarfélaga hélt í dag ráðstefnu um um­deilt umskurðarfrum­varp Silju Dagg­ar Gunn­ars­dótt­ur, þing­manns Fram­sókn­ar­flokks­ins

„Málið er ekki læknisfræðilegt. Það snýst um tengslin milli minnihluta og meirihluta,“ sagði Melchior, og bætti við að frumvarpið væri heldur ekki úr lausu lofti sprottið. Grunnhugmyndin eigi sér rætur í langvarandi umræðu danskra lækna sem hafi þrýst á Íslendinga að setja það í lög. „Þeir telja bannið geta gengið í gegn hér, af því að hérna búa svo fáir gyðingar.“

Sagði Melchior, umræðuna hafa verið í gangi í Danmörku sl. 20 ár, en það væri ekki fyrr en nú sem ógnin um bann við umskurði drengja virtist vera raunveruleg. „Núna birtast gott sem daglega greinar í dagblöðum um bann við umskurði og í fyrsta skipti höfum við þurft að ráða almannatengil til starfa til að verja þennan rétt.“

Aðgerðin okkur nauðsynleg

Hægt væri að taka umræðu um málið ef það væri raunverulega læknisfræðilegt, en svo væri hins vegar ekki. „Já við erum öðruvísi. Ég er gyðingur, en ég virði aðra sem hafa aðrar skoðanir,“ sagði Melchior og spurði hvort að sú virðing væri gagnkvæm.

Foreldrum sé falið að ákveða hvað sé best fyrir börn sín í margvíslegum málum og svo eigi einnig við um umskurð drengja. „Það er grundvöllur þessarar umræðu. Þessi aðgerð er okkur nauðsynleg,“ sagði hann. „Ég bið ykkur ekki að deila trú minni, en ég bið ykkur að leyfa mér að trúa.“

Kvaðst Melchior telja að hugmyndin að banninu væri sprottin úr jákvæðum grunni og vissulega væri erfitt að útskýra hvers vegna umskurður skipti svo miklu máli í gyðingatrú.

Það væri hins vegar varhugarvert að taka hugmyndina að Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og telja bannið eiga rætur sínar þar.  „Það sem þá gerist, er að þá eru þið að ýta burt öllum  gyðinga- og múslimaríkjum sem einnig samþykktu sáttmálann, sáttmála sem annars er svo mikilvægur,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert