Uggandi yfir opnun vistheimilis

Norðlingaholt í Reykjavík.
Norðlingaholt í Reykjavík. mbl.is/Sigurður Bogi

Íbúasamtök í Norðlingaholti eru mjög uggandi yfir fyrirhugaðri opnun vistheimilis að Þingvaði 35 fyrir ungmenni með sögu um alvarlegan og fjölþættan fíkniefnavanda.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu á Facebook-síðu samtakanna.

Íbúar í Þingvaði, íbúasamtök Norðlingaholts og fleiri velunnarar Holtsins, hafa sett sig í samband við ráðherra, Barnaverndarstofu og fleiri sem koma að framkvæmd vistheimilisins og óskað eftir nánari útlistun á starfsemi vistheimilisins.

Fram kemur í yfirlýsingunni að fátt hafi verið um svör og þau svör sem hafi borist hafi verið mjög misvísandi.

Þar segir einnig að fulltrúum Barnaverndarstofu hafi ekki þótt tímabært að funda með íbúum, þar sem fullnægjandi upplýsingar um starfshætti liggi ekki fyrir, auk þess sem enn eigi eftir að tryggja fjármagn.

„Í ljósi þessara vitneskju okkar þrýstum við á háttvirtan ráðherra félags- og jafnréttismála að endurskoða ákvörðun sína og finna aðra lausn á vanda unglinganna og að staðsetningin verði í sátt við umhverfið, sem yrði aldrei í Norðlingaholti rétt við opinn/úti leikskóla, skóla með fjölda krakka og unglinga. Í hverfinu búa fjölskyldur með yfir 500 börn og unglinga. Í um 100 metra radíus kringum Þingvað 35 búa yfir 100 börn og krakkar. Opni/úti leikskólinn í Björnslundi er rétt um 100 metra frá Þingvaði 35,“ segir í yfirlýsingunni og því er bætt við að starfsemin eigi ekki heima í hverfinu frekar en á öðru íbúasvæði.  mbl.is