Var næstum búin að gleyma lottóvinningi

Þrátt fyrir að músagangur sé oftast frekar hvimleiður fyrir húseigendur varð slík plága áhrifavaldur þess að ung kona datt í lukkupottinn og vann 20 milljónir króna.

Í tilkynningu frá Íslenskum getraunum kemur fram að konan hafi verið á ferð í nágrenni Hveragerðis þegar hún fékk símhringingu og var beðin um að kaupa músagildrur í næstu verslun. Þar heyrði hún fólk tala um stóran lottóvinning og hélt því í verslun Skeljungs í Hveragerði og keypti þar miða.

Var hún ein fjögurra sem skiptu með sér fyrsta vinningi sem var yfir 80 milljónir og fékk hún um 20 milljónir í sinn hlut.

Þrír af þeim gáfu sig fljótlega fram og er unga konan fjórði vinningshafinn sem Íslensk Getspá hefur verið að bíða eftir. Í tilkynningunni er haft eftir henni að hún hafi lítið verið að flýta sér að sækja vinninginn þegar hún var spurð um það af hverju hún kom ekki fyrr. Sagðist hún ekki hafa átt leið í bæinn fyrr og var nú eiginlega bara búin að gleyma þessu. Milljónirnar tuttugu eru samt sem áður vel þegnar og ætlar unga konan að nota þær til að kaupa sér húsnæði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert