Vara við vatnsveðri og snörpum hviðum

Gul viðvörun er í gildi á Suðurlandi, Suðausturlandi og Austfjörðum.
Gul viðvörun er í gildi á Suðurlandi, Suðausturlandi og Austfjörðum. Skjáskot/Veðurstofa Íslands

Veðurstofan segir að búast megi við snörpum vindhviðum við Öræfajökul og syðst á landinu fram eftir morgni. Einnig er spáð talsverðri rigningu suðaustanlands og á Austfjörðum í dag og varað við auknu rennsli í ám og lækjum. Gul viðvörun er í gildi á Suðurlandi, Austfjörðum og Suðausturlandi.

Veðurvefur mbl.is

Í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofunnar segir að í dag verði austlæg átt á landinu, hvassviðri eða stormur allra syðst til að byrja með en svo muni draga úr vindi þar þegar líður á morguninn. Hins vegar verði víða 10-18 m/s vindhraði í dag. Útlit er fyrir talsverða rigningu suðaustanlands og á Austfjörðum fram eftir degi og jafnvel á Ströndum líka, en aðrir landshlutar munu einnig finna fyrir einhverri vætu þótt minni sé. 

Á morgun snýst í stífa suðlægari átt og áfram rigning sunnanlands, en úrkomulítið fyrir norðan. Það hlýnar nú um norðanvert landið og líkur á tveggja stafa hitatölum þar yfir hádaginn. 

Á sumardaginn fyrsta (fimmtudaginn) er útlit fyrir sæmilegasta veður, að mati veðurfræðings Veðurstofunnar. Búist er við hægum vindi og einhverri vætu í formi skúra sunnan- og vestanlands, „en fyrir norðan og austan gæti sólin jafnvel staldrað við og gert daginn sumarlegan. Hitatölur líklega upp undir 10 stigum í flestum landshlutum.“

Veðurviðvaranir í dag

Á Suðurlandi er varað við austanhvassviðri eða -stormi til klukkan 8. Spáin er þessi: Austan 15-23 m/s, hvassast syðst. Búast má við vindhviðum við fjöll yfir 30 m/s.

Á Austfjörðum er varað við mikilli rigningu og afrennsli þar til síðdegis í dag. Spáin er þessi: Gert er ráð fyrir mikilli rigningu á Austfjörðum, einkum sunnan til. Mikil snjóbráð eykur á vatnsrennsli. Eftir að gildistíma viðvörunar lýkur verður áfram vætusamt, en mun minni úrkoma.

Á Suðausturlandi er sömu sögu að segja. Spár gera ráð fyrir mikilli rigningu og er viðvörun vegna veðurs í gildi til klukkan 18. Í viðvörunarorðum Veðurstofunnar segir að snjóbráðnun auki á vatnsrennsli. Í kjölfarið má búast við auknu rennsli í ám og lækjum á svæðinu. Eftir að gildistíma viðvörunar lýkur verður áfram verður vætusamt, en mun minni úrkoma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert