Vildi verða rekinn úr skóla

Bjartmar Guðlaugsson
Bjartmar Guðlaugsson Ísland vaknar

Bjartmar Guðlaugsson kom í heimsókn í þáttinn Ísland vaknar á K100 í morgun en hann kemur fram á tónlistarhátíðinni Heima sem haldin verður í Hafnarfirði á morgun, síðasta vetrardag. Heima markar upphafið að bæjarlistahátíðinni Bjartir dagar sem stendur yfir í Hafnarfirði í 4 daga en hátíðin dregur nafn sitt af því að tónlistarmennirnir sem koma fram gera það heima hjá Hafnfirðingum sjálfum.

Bjartmar er auðvitað landsþekktur fyrir lög sín og texta en hann segist þó fyrst og fremst vera myndlistarmaður. „Ég fór í myndlistarnám í Danmörku 1992 og er fyrst og fremst myndlistarmaður,“ segir Bjartmar en hann hefur annars aldrei verið mjög hrifinn af námi. „Ég beið bara alltaf eftir því að vera rekinn úr skóla“, segir Bjartmar þegar hann rifjar upp æskuárin. 

Bjartmar sagði frá því að hann á átta barnabörn og eitt þeirra er meira að segja skýrt í höfuðið á honum. Bjartmari segir að honum finnist æðislegt að eiga nafna nema þegar hann heyrir setninguna „Bjartmar, ertu búinn að kúka?“

Bjartmar tók lagið Á meðan þú sefur í beinni útsendingu en textinn í laginu er honum hjartfólginn. „Ofbeldi gagnvart litlum börnum er svívirðilegt,“ segir Bjartmar.

Hægt er að hlusta og horfa á viðtalið og lagið í heild hér að neðan.

Ísland vaknar er á dagskrá K100 alla virkna morgna frá kl. 6.45 til 9.00. Hægt er að horfa á þáttinn í beinni á Rás 9 í Sjónvarpi Símans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert