Dæmdur í 16 ára fangelsi

Khaled Cairo á leið úr Héraðsdómi Reykjavíkur í dag eftir …
Khaled Cairo á leið úr Héraðsdómi Reykjavíkur í dag eftir að dómur var kveðinn upp. mbl.is/Valli

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag Khaled Cairo í 16 ára fangelsi fyrir að hafa orðið Sanitu Brauna að bana í íbúð við Hagamel í Reykjavík í september í fyrra. Til frádráttar kemur óslitið gæsluvarðhald frá 22. september. Ákæruvaldið fór fram á 16 ára fangelsi yfir Cairo en verjandi hans, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, að honum yrði ekki gerð refsing á þeim forsendum að hann væri ósakhæfur.

Þegar Cairo var handtekinn var hann að sögn lögreglu blóðugur frá hvirfli til ilja. Viðurkenndi hann við yfirheyrslur að hafa ráðist á Sanitu og misst endanlega stjórn á skapi sínu þegar nágranni Sanitu birtist í dyragættinni. Sagði hann að árásin hefði verið gerð í refsingarskyni vegna þess að hún hefði lagst með svörtum manni.

Fram kom við réttarhöldin yfir Cairo að nágranni Sanitu hefði hringt í Neyðarlínuna og greint frá árásinni. Cairo væri meðal annars að berja hana með slökkvitæki og blóð væri úti um allt. Síðan heyrðist nágranninn rífast við Cairo sem hefði sagt að hann mætti ekki hringja í lögregluna. Sanita lést í kjölfarið af völdum áverkanna.

Tveir geðlæknar báru við réttarhöldin að þeir teldu Cairo vera sakhæfan. Við dómsuppkvaðninguna var Cairo glaðbeittur og heilsaði fréttamönnum. Þegar dómur hafði verið kveðinn upp sagði hann að hann hefði sagt sannleikann en ekki hafi verið hlustað á hann. Hvatti hann fjölmiðlamenn til þess að segja sannleikann.

Verjendur Cairos sögðu að tekinn yrði frestur til þess að ákveða hvort málinu yrði áfrýjað til Hæstaréttar. Sjálfur sagði hann á leið úr dómsalnum að hann sæi engan tilgang með því og ítrekaði að ekki væri vilji til þess að heyra sannleikann í málinu.

Fyrir utan fangelsisdóminn var Cairo dæmdur til þess að greiða samtals 12,2 milljónir króna í skaðabætur til aðstandenda Sanitu, þar af 1,6 milljón króna til hvors foreldra hennar og þremur börnum hennar 3 milljónir króna hverju, auk rúmlega 11,5 milljóna samanlagt í málskostnað. Við upphæðirnar bætast dráttarvextir.

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, verjandi Cairos, vildi aðspurður ekki tjá sig um niðurstöðu héraðsdóms.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert