Göngugötur opna 1. maí

Bekkjum og blómakerum verður komið fyrir á svæðinu til að …
Bekkjum og blómakerum verður komið fyrir á svæðinu til að gleðja augað og lífga upp á mannlífið. Laugavegur verður málaður á kafla eins og síðustu ár og unnið að ýmsum sumarverkefnum á göngugötusvæðinu. mbl.is/Eggert

Tímabil göngugatna í Reykjavík stendur yfir frá 1. maí til 1. október að þessu sinni og er markmiðið að efla mannlíf og verslun í miðborginni.

Öll umferð bifreiða verður óheimil á svæðinu að undanskilinni umferð vegna vörulosunar sem heimiluð verður milli kl. 7. og 11. virka daga. Þetta kemur fram á vef Reykjavíkurborgar. 

Þar segir, að ætlunin sé einnig að bæta aðgengi gangandi og hjólandi fólks að verslun og þjónustu. 

Eins og undanfarin ár verða eftirfarandi götur göngugötur frá 1. maí til 1. október:

  • Pósthússtræti milli Kirkjustrætis og Hafnarstrætis
  • Austurstræti ásamt Veltusundi og Vallarstræti.
  • Laugavegur og Bankastræti, frá Vatnsstíg að Þingholtsstræti
  • Skólavörðustígur milli Bergstaðastrætis og Laugavegar.

Aukið álag á hreinsun og viðhald

Þá segir, að þessu fylgi óneitanlega aukið álag á hreinsun og viðhald.

„Rekstraraðilar eru því beðnir um að leggja borginni lið við að halda umhverfinu snyrtilegu í kringum  starfsemi sína, sér í lagi veitingastaðir og kaffihús. Samstarf rekstraaðila og borgarinnar um þetta verkefni er mikilvægt til að það heppnist sem best,“ segir á vef borgarinnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert